SunnudagsMogginn - 16.05.2010, Blaðsíða 28

SunnudagsMogginn - 16.05.2010, Blaðsíða 28
28 16. maí 2010 Þ að var kaldur og drungalegur dagur við Jökulsárlón á Breiða- merkursandi. Ísjakarnir velkt- ust um í fjöruborðinu. Þeirra tími var kominn eftir að hafa fallið sem snjór á jökulinn fyrir átta hundruð til þúsund árum og mjakast síðan hægt og örugglega niður skriðjökulinn. Ísinn brotnar úr jökulstálinu, jakarnir fljóta um um stund og þokast svo með ánni í átt til sjávar, þar sem þeir hverfa í fjöruborðinu. Jökulsáin sem rennur undir jöklinum út í lónið á Breiðamerkursandi hefur tutt- ugfalt meiri graftargetu en jökulá sem rennur óheft til sjávar. Hún hefur gert Jökulsárlónið að dýpsta stöðuvatni lands- ins, tvö hundruð áttatíu og fjögurra metra djúpu. Jöklar geyma sögu heimsins og Vatna- jökull er ein þeirra heimilda. Hann geym- ir sögu eldgosa og náttúruhamfara margra alda og veitir upplýsingar um mótun jarðarinnar, heimkynna okkar. Ekki síður geymir hann sögu veðurfarsins þar sem kaflarnir heita m.a. kuldaskeið og hlýskeið. Þar er meira að segja að finna kafla um „litlu ísöld“ og móðuharðindin og aðra hörmungatíma í sögu þjóðar- innar. Í gömlum sögum er talað um huldar vættir landsins. Eru þær til eða ekki? Ég veit það ekki, en sögurnar eru sumar skemmtilegar og margir segjast hafa séð huldufólk úr huliðsheimum. Svo eru það álfarnir og tröllin sem sum hver eiga full- trúa í mannheimum. Ég hef um hríð myndað andlit í ísjökum sem hafa brotnað ofan í Breiðamerkurlón og segja sögu liðinna tíma. Þar gægjast fram andlit sem hafa verið hulin sjónum umheimsins um margar aldir. Þau horfa á okkur skamma stund og hverfa svo í Atl- antshafið, sem í því tilviki verður gleymskunnar haf. Þær vættir sem þarna losna nú úr álögum og hverfa út í heims- höfin eru frá öld Sturlunga. Þá var óöld á Íslandi og landsmenn hjuggu mann og annan. Ég hef stundum hugleitt hvort Jökuls- árlónið sé lón vættanna? Hverjir eru það sem stara á móti mér úr köldum viðjum íssins? Sumir eru reiðir á svip og aðrir blíðir. Í sumum andlitunum birtist sorgin og í öðrum angist og kvöl. Getur verið að tíðarandi Sturlungaaldar og hörmung- arnar sem dundu á íbúum landsins hafi varðveist í frostinu? Einn kaldan dag við Jökulsárlónið fann ég að jaki sem hafði strandað skammt frá landi togaði mig til sín. Það var dumb- ungsveður og aðfall. Brimið herti eftir því sem hækkaði í sjónum. Jakinn var um tveir metrar á hæð, fjögurra metra breið- ur og um einn og hálfur metri á þykkt. Hann var það langt frá landi að ég varð að vaða út í sjóinn til að komast nær þessu fallega klakastykki. Ég var búinn að taka nokkrar myndir og var að verða saddur þegar birtan breyttist. Sólin braust fram úr skýjum og skein lágt eftir haffletinum í um tuttugu sekúndur. Jakinn lýstist upp og ljómaði eins og demantur örfá augna- blik. Ég smellti af fjórum myndum áður en sólin hvarf aftur í skýjaþykknið og um leið kláraðist filman. Það var eitthvað undarlegt við þennan jaka. Hann ljómaði allur og var öðruvísi en allir félagar hans í fjörunni auk þess sem hann var stærri. Ég var ekki viss hvað þarna gerðist svo snöggt en andlitið í þessum jaka var öðruvísi en öll önnur andlit í hinum jökunum. Þegar sólin hvarf huldist andlitið um leið. Ef myndinni er snúið á hvolf má sjá fleiri andlit ef vel er skoðað. Þau koma allt í einu í ljós. Brimið herti og sjórinn og jökulsáin tóku ísjakann út í öldurótið þar sem hann leystist úr fjötrum ísheima eftir nær þús- und ára prísund. Ef allur jökulmassi í jöklum Íslands bráðnar hækkar yfirborð heimshafanna um einn sentimetra. Land mun rísa þegar þunga jöklanna er aflétt og eldfjöll sem legið hafa í dvala geta farið að gjósa á ný. Grænlandsjökull geymir um tíu prósent af vatnsmagni jarðarinnar. Ef hann bráðnar mun yfirborð heimshafanna hækka um sjö metra. Bráðni Suðurskautshellan hækkar í heimshöfunum um 70 metra og veður versna þar sem fellibyljir munu fá meira fóður í áður óþekkt illviðri. Það mun hafa áhrif á líf þorra alls mannkyns. Það er frekar ólíklegt að bráðnun jökla verði í þessum mæli. Loftslag hefur hlýnað og kólnað til skiptis um ótaldar aldir ísögu jarðarinnar. Duttlungar og öfl náttúrunnar hafa stýrt þeim sveiflum. Allt er þetta hluti af hringrás sköpunarinnar í óravíddum al- heimsins þar sem við erum eins og lítið rykkorn. Ef til vill eigum við einhvern þátt í þeirri hlýnun jarðar sem nú stendur yfir. Allir þurfa að hugsa um ábyrgð sína í þeim efnum. Við eigum bara þetta eina heimili – jörðina. Risaeldgos, jafnvel á Ís- landi, geta valdið kólnun loftslags. Augnablikið við jakann forðum og and- litið sem felldi tár er ein af mörgum myndum sem segja sögu liðinna tíma um kólnun og hlýnun og bráðnun jökla. Eru opinmynnt andlit ísvættanna neyðaróp inn í framtíðina? Fellir ísvætturin tár yfir því hvernig við högum okkur? Það hefur lítið breyst frá Sturlungaöld. Enn eru höggnir menn og aðrir þótt beitt sé öðrum vopnum en sverðum og spjót- um. Hvernig ætli nútíminn á Íslandi og í heiminum öllum birtist framtíðinni eftir þúsund ár? Hvaða ásjónur blasa þá við þeim sem skyggnast inn í fortíðina? Get- um við verið stolt af því sem þá blasir við? Sagan bak við myndina Ragnar Axelsson rax@mbl.is Andlit aldanna
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.