SunnudagsMogginn - 12.09.2010, Side 21
12. september 2010 21
S
igrúnu Einarsdóttur varð ekki
um sel einn góðviðrisdaginn í
sumar þegar páfagaukurinn
hennar, Patti Pavarotti, flaug
skyndilega út um bakdyrnar og upp í loft-
ið. Á augabragði varð hann að litlum
punkti á himninum, þar sem sultarlegur
mávur og kotroskin kría störðu á hann í
forundran.
Patti hafði aldrei gert þetta áður enda
þótt Sigrún hafi margsinnis farið út í hurð
með kappann á öxlinni. Mistökin sem hún
gerði að þessu sinni var að fara skyndilega
út að sækja kaffibollann sinn að Patta for-
spurðum. Hann er svoddan mömmu-
strákur að hann vill helst ekki sleppa Sig-
rúnu úr augsýn.
Nú voru góð ráð dýr, Patti hafði hvorki
þak né veggi að miða við, barðist bara um
í loftinu. „Mér leist ekki á blikuna,“ við-
urkennir Sigrún. „Mávurinn var til alls
líklegur. Patti hefði ekki haft roð við hon-
um.“
En þegar neyðin er stærst er Mozart
næst, eins og þar stendur. Patti gegndi
ekki nafninu sínu en um leið og Sigrún
greip til þrautavara til þess ráðs að blístra
stef úr Töfraflautunni náði sá fiðraði fljótt
áttum. Patti er nefnilega ekki Pavarotti
fyrir ekki neitt. Hann er söngelskur með
afbrigðum og hefur sérstakt dálæti á
meistara Mozart.
Hann tók flugið lóðbeint niður og lenti
með brambolti á öxlinni á Sigrúnu. „Hann
var lafmóður, greyið, enda ekki vanur að
fljúga mikið, og afskaplega feginn. Patti
hefur ekki í annan tíma verið eins lítill í
sér. Hann kúrði í hálsakotinu á mér lengi á
eftir. Sjálfri var mér létt en maður finnur
glöggt á svona stundu hvað þessi litlu kríli
skipta mann miklu máli,“ segir Sigrún.
Kann að syngja Mozart
Patti er fjögurra ára dísufugl. Hann heill-
aði Sigrúnu strax upp úr skónum en sem
ungi var hann í eigu systursonar hennar.
Söngástin er rík í hans karakter og við
hæfi að fuglinn heiti í höfuðið á tveimur af
ástsælustu söngvurum síðustu aldar –
Patti Smith og Luciano Pavarotti.
Sem fyrr segir er Mozart í sérstöku
uppáhaldi og Patti hefur prýðilegt vald á
nokkrum stefjum úr nótnabók meist-
arans. Sigrún fær hann til að taka lagið
fyrir gestina úr Hádegismóunum. Patti
kann líka vel að meta Pétur og úlfinn eftir
Prokofiev og upp á síðkastið hefur Sigrún
verið að kenna honum stefið úr kvik-
myndinni Brúin yfir Kwai-fljótið. „Enn
sem komið er tekur hann það bara þegar
hann þarf að smjaðra fyrir mér, eins og
þegar hann vill komast út úr búrinu sínu.“
Önnur aðferð sem Patti beitir, vilji hann
komast út, er að láta skella í stiganum í
búrinu. Vilji hann komast inn í búrið aftur
nartar hann í eyrað á Sigrúnu. Þau skilja
hvort annað, mæðginin.
Sigrún veit ekki til þess að dísufuglinn
geti lært að tala. Ekkert er þó útilokað í
þeim efnum enda hefur hún heyrt af gára,
sem er minni gerð af páfagauki, sem gat
ekki einungis talað heldur einnig dregið
ályktanir.
Sigrún upplýsir að hún hafi séð mynd-
bönd af dansandi dísufuglum á netinu en
Patti hefur ekki ennþá náð valdi á þeirri
göfugu list. Hann iðar þó gjarnan þegar
takturinn þéttist.
Skeptískur á gesti
Að sögn Sigrúnar er Patti mikill karakter
enda þótt hann sé ekki allra. „Hann er
mjög háður mér og yfirleitt skeptískur á
gesti. Á því eru þó undantekningar, til
dæmis bókarinn minn. Patti færist allur í
aukana þegar hún kemur og sest um leið á
öxlina á henni.“
Afbrýðisemi er snar þáttur í fuglgerð
Patta. Hann á það til dæmis til að vera
mjög önugur við systur Sigrúnar og svo
þolir hann illa að hún sýni öðrum en hon-
um mikla athygli. „Sumir segja að hann sé
með svo lítið heilabú að hann hljóti að
vera heimskur. Því fer fjarri.“
Máli sínu til stuðnings nefnir Sigrún að
sjö mánaða drengur, sem var gestkom-
andi hjá henni í sumar, hafi ítrekað reynt
að handsama Patta. Þrátt fyrir áreitið beit
fuglinn barnið aldrei, gerði sér vænt-
anlega grein fyrir vanþroska þess.
Patti vill ekki fyrir sitt litla líf missa af
því þegar Sigrún fer í bað. Henni hefur
meira að segja tekist að ná honum undir
sturtuna. Þá er hann býsna rogginn á eftir.
„Systursonur minn kenndi honum að
blístra, svona eins og karlmenn blístra á
konur, og ég get ekki neitað því að það er
uppörvandi þegar hann byrjar á því með-
an ég er í baðinu,“ segir hún kímin.
Það eru þó öðru fremur tær sem koma
Patta til. Hann er vitlaus í þær – og vill þá
helst narta. Ófáir gestir hafa yfirgefið
Bergvík sárfættir.
Patti kveinkar sér ekki undan hefð-
bundnu fuglafæði en þykir mikið til þess
koma að fá að snæða með Sigrúnu við eld-
húsborðið. Ostur er í uppáhaldi og hann
elskar hafragraut út af lífinu. Hann sting-
ur hausnum jafnan á kaf ofan í diskinn og
kemur upp steyptur í hafragraut. Á því
augnabliki þykir honum ljúft að hrista sig
allan – Sigrúnu til takmarkaðs yndis.
Frómt frá sagt er Patti raunar svolítill
skaðvaldur. Hann á það til að naga bast-
körfur og í tvígang hefur Sigrún þurft að
gera við hleðslusnúruna á símanum sín-
um.
Varpfuglinn Ingólfur
Patti er annar dísufuglinn sem Sigrún á.
Áður voru þau Søren heitinn Larsen, eig-
inmaður hennar, með kvenfugl sem hét
því ágæta nafni Ingólfur Arnarson. „Við
fluttum hann inn frá Danmörku og Søren
þótti upplagt að nefna fuglinn í höfuðið á
landnámsmanninum. Síðan kom í ljós að
hann var kvenkyns. Upp frá því kölluðum
við fuglinn bara Gollý.“
Gollý var svolítið rugluð, að sögn Sig-
rúnar, og verpti út í eitt. „Søren vildi
meira að segja leigja hana sem varphænu
upp á Vallá,“ rifjar hún upp hlæjandi.
Gollý var mun hændari að Søren en Sig-
rúnu en sá áhugi var ekki gagnkvæmur.
Sigrún gerði tilraun til að útvega Gollý
sálfræðiaðstoð. Fann meira að segja upp-
lýsingar á netinu um mann í Bandaríkj-
unum sem kunni til verka. Ritaði hún
honum tölvubréf á netfang hans hjá
bandarísku geimvísindastofnuninni,
NASA. Ekki fékk hún svar frá manninum
sjálfum en eftir dúk og disk kom formlegt
bréf frá NASA, þar sem Sigrúnu var til-
kynnt að bréfi hennar yrði eytt eftir að af-
dulkóðun hefði farið fram. NASA taldi
sumsé að sálfræðiaðstoð Gollý til handa
væri yfirvarp. Erindið hlyti að vera annað
og ískyggilegra. „Fyrst NASA gat ekki
hjálpað mér, gafst ég upp,“ segir Sigrún
hlæjandi en þau létu Gollý á endanum frá
sér. „Hún fór á Selfoss, þar sem hún eign-
aðist mann og var alsæl.“
Unni túperuðu hári
Sigrún hefur alla tíð verið mikill dýravin-
ur og mörg gæludýr eru henni minn-
isstæð. Má þar nefna gára sem hún átti
sem barn en hann hafði sérstakt dálæti á
túperuðu hári og lagði sig í líma til að gera
þar hreiður.
Sigrún man líka vel eftir heimiliskett-
inum sem hafði þann sið að svæfa hana og
systur hennar þrjár, hverja af annarri,
með því að leggjast á hálsinn á þeim.
Eitt sinn tóku þau Søren að sér æð-
arfuglsunga, Leópold að nafni. Sá var
mikill karakter. „Leópold var mjög
skemmtilegur en afskaplega lítill í sér.
Gárinn Kalli var hjá okkur á þessum tíma
og Leópold var logandi hræddur við hann.
Stakk höfðinu undir væng þegar Kalli
nálgaðist,“ segir Sigrún. Leópold var síðar
sleppt út í náttúruna.
Hún segir fólkið sitt lengi hafa hlegið að
sér fyrir að gefa dýrum sál og hæfileika.
„Ég hef til dæmis ákaflega gaman af því að
túlka hesta, þær ágætu vöðvasálir. Vinur
minn, sem er hestamaður, spyr mig
gjarnan hvað hestarnir hans séu að
hugsa.“
Það er mál til komið að kveðja Sigrúnu í
Bergvík. Hún fylgir mér til dyra að góðum
íslenskum sið, svo ég fari ekki með allt
vitið úr húsinu. Patti Pavarotti er á öxl
eiganda síns og kinkar til mín kolli um leið
og hann gægist varfærnislega til himins.
Um hann fer hrollur. Það er líkast til nóg
að hlæja einu sinni með mávum.
Lagviss og
grautelskur
Patti Pavarotti, dísufugl Sigrúnar Einarsdóttur
glerlistakonu í Bergvík, er kynlegur kvistur.
Syngur Mozart, heillast af tám og elskar hafra-
graut út af lífinu. Tilvist hans hefur þó ekki kom-
ið til kasta NASA, eins og forvera hans, Gollýjar.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Patti Pavarotti í essinu sínu á öxl Sigrúnar Einarsdóttur, eiganda síns, á Kjalarnesi. Hand-
brúðan Gleypir er í miklum metum og Patti á gjarnan langar samræður við hana.
Morgunblaðið/Ernir
Patta og stofustássinu Tígra er vel til vina.
’
Hann stingur hausn-
um jafnan á kaf ofan í
diskinn og kemur upp
steyptur í hafragraut. Á því
augnabliki þykir honum
ljúft að hrista sig allan.