Vera - 01.08.2002, Blaðsíða 3
Frelsi til að selja konur
Það er mikið rætt um frelsi nú á dögum, eins og það sé orðið að guðspjalli
°g testamenti okkar tíma. Frelsi til að hugsa eingöngu um sig, ffelsi til að
ná langt, frelsi til að njóta, frelsi til að kaupa það sem er til sölu. Ef konur
eru til sölu nær frelsið líka til þess að kaupa þær. Þar sem er
frelsi til að selja konur er ekki talið neitt athugvert við að státa af því að
hafa grætt á að selja þær. Ef reynt er að koma í veg fyrir að konur séu
seldar er leitað til dómstóla um skaðabætur á þeim forsendum að
atvinnufrelsið hafi verið skert og vísað í stjórnarskrána.
Frelsisumræðan segir líka að konurnar hafi frelsi til að selja sig. Þær séu
frjálsar að því ná sér í peninga á þann hátt eins og hvern annan. Ungar
stúlkur sem heyra um frelsið og ríkidæmið á vesturlöndum láta sig
dreyma um hlutdeild í því, að koma sér út úr ömurlegum aðstæðum í
löndum Austur-Evrópu eftir að þau fengu frelsi. Hingað hafa þær komið
í hópum og verið frjálsar að því að sitja í kjöltu manna sem hafa verið
frjálsir að því að borga fyrir að fá að vera einir með þeim í litlum klefa,
frjálsir að því að eyða heimilispeningunum í drykki og kynferðislegt
frelsi þangað til greiðslukortafyrirtækin gerðu athugasemd og settu
hámark á úttektina.
Og svo kom að því að fleiri vildu setja takmörk. Loksins sáu bæjar-
yfirvöld að þau gátu haft áhrif á lögreglusamþykkt í eigin sveitarfélagi og
haft skoðanir á því hvers konar frelsi ætti að ríkja þar. Frelsið er ekki
náttúrulögmál, því má stýra. Það má hafa skoðanir á því hvar mörkin eru
°g setja mörk. Fyrir það eiga bæjaryfirvöld í Reykjavík og á Akureyri hrós
skilið og það ættu yfirvöld í Kópavogi og Keflavík að taka sér til
fyrirmyndar. Næst kemur að stjórnvöldum að gera upp við sig hvort
þeim finnist við hæfi að halda áfram að gefa eigendum nektardansstaða
löglegt atvinnuleyfi fyrir stúlkur sem hingað koma til að fletta sig
klæðum. Og það verður spennandi að fylgjast með dómsmálinu sem í
hönd fer um skaðabætur vegna skerðingar á atvinnufrelsi. Hvaða leið
œunu lögspekingar landsins finna til að vernda frelsið til að selja konur?
Það verða kannski svipuð rök og notuð eru til að vernda atvinnufrelsi
merkjavöruframleiðendanna sem þræla út börnum í verksmiðjum í Asíu,
eins og sagt er frá í grein hér í blaðinu um bókina No Logo.
Þegar rætt er um hvort hamla eigi frelsi manna til að selja konur er oft
sagt að ef það sé ekki leyft opinberlega fari það bara undir yfirborðið og
verði enn verra. Það er eins og löggjafinn treysti ekki eigin lögum og trúi
ekki að hann hafi áhrif með því að senda skilaboð út f samfélagið með
lagasetningu. Eru áhrif frelsisdýrkunarinnar það mikil að kjörnir full-
trúar þjóðarinnar telji þau sterkari en allt þeirra basl? Að sjálfsögðu
munu þeir sem vilja selja konur reyna að halda áfram að gera það - á
meðan einhverjir vilja kaupa. Það er lögmálið um framboð og eftirspurn.
En stjórnvöld geta haft skoðanir á því hvort það sé rétt eða rangt og sett
reglur í samræmi við það.
0vý+Vztó
Reykjavíkurborg og Akureyrarbær
fyrir að setja bann við einkadansi á næturklúbbum í
lögreglusamþykkt sína og ákvæði um að dansarar
eigi að vera uppi á sviði en ekki í fanginu á viðskipta-
vinum staðanna. Með þessu er starfsemi íslenskra
næturklúbba komin í samræmi við það sem leyft er á
næturklúbbum í öðrum löndum.
Konur sem framkvæmdastjórar sveitarfélaga
en tólf konur tóku við störfum af því tagi eftir kosn-
ingarnar í vor. Þrjár eru bæjarstjórar og fjórar
sveitarstjórar en fimm konur tóku við stöðu oddvita
í fámennari sveitarfélögum þar sem ekki er starfandi
framkvæmdastjóri. Til viðbótar þessum tólf halda
sex konur starfi sínu sem framkvæmdastjórar sveitar-
félaga. Konur eru því framkvæmdastjórar í 18
sveitarfélögum af 105 svo enn er langt í land með að
jafnvægi náist.
Fjölmennið á Gay Pride
sem aldrei hefur verið meira. Hinsegin dagar og
gangan um miðbæinn 10. ágúst er gott tækifæri fyrir
fólk til að sýna samstöðu með samkynhneigðum.
Reyndar var fjölmennið svo mikið að ljóst er að
Ingólfstorg er of lítið fyrir uppákomuna. Hvernig
væri að vera á Arnarhóli næst?
MÍNUS
Kópavogur og Keflavík
sérstaklega oddvitar sjálfstæðismanna, Gunnar I.
Birgisson og Árni Sigfússon, fyrir að vilja ekki setja
sams konar bann við einkadansi á nætuklúbbum í
þeirra bæjarfélögum og gert hefur verið í Reykjavík
og á Akureyri.
DV og Séð og heyrt
fyrir gagnrýnislaus hetjuviðtöl við klámkónginn
Ásgeir Davíðsson, eiganda Maxim's og Gold Finger,
þar sem hann lýsir raunalegum uppvexti, skilnuðum
og segir frá börnum sem hann á með nokkrum
konum um leið og hann státar af því að hafa grætt
hundruðir milljóna á því að selja aðgang að
smástelpum. Á fólk að fá samúð með honum af því
að hann er svo „dæmigerður íslendingur"?
30% kynbundinn launamunur
sem enn er staðreynd, samkvéemt viðamikilli könn-
un sem Samtök atvinnulífsins gerðu fyrir Jafnréttis-
ráð og Nefnd um efnahagsleg völd kvenna. Föst
dagvinnulaun karla voru 179.000 krónur í febrúar
2001 en laun kvenna 124.000 krónur eða 70% af
launum karla. Könnunin var gerð á almennum
vinnumarkaði og fengust upplýsingar frá 16.500
manns.