Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1954, Síða 80
62
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
kvæði þau er honum hafa verið
eignuð hafi kannske ekki alveg
jafnazt á við Lilju og Passíusálmana,
það bezta fyrir og eftir daga hans.
Hitt er ljóst, að skáldfrægð hans
mun hafa lítið gott af því, að tak-
marka trúverðug kvæði hans við
Píslargrát (í hrynhendu) og Davíðs-
dikt (þ. e. 51. sálm Davíðs, á latínu
Miserere undir Ljómahætti) eins og
Jón Helgason vill gera. Að vísu er
bættur skaði þótt Niðurstigningar-
vísur og Krossvísur sé ekki eignaðar
honum, en þegar Ljómur fara sömu
leið er hætt við að fari að sneiðast
um skáldfrægð hans, því þær eru
tvímælalaust bezta kvæðið, sem
honum hefur verið eignað.
Ljómur fjalla um sköpun, synda-
fall, endurlausn, upprisu og efsta
dag eins og Lilja og slaga hátt upp
í það kvæði að skáldlegu gildi. Þær
eru ortar undir sama hætti og Skáld-
Sveinn notar, líklega fyrstur manna,
í Heimsósóma af ámóta mikilli list
og höfundur Ljóma. Því hlýtur sú
spurning að vakna, hvort Ljómur
séu þá ekki frekar eftir Skáld-Svein
en Jón Arason, því að tæplega er
hægt að telja að Davíðsdiktur Jóns,
þriðja kvæðið undir þessum hætti,
þótt gott sé, jafnist á við hin stór-
kvæðin tvö, og er það þó ekki af því,
að Jón noti ekki háttinn þar af snilld,
því að undir kvæðislokin bregður
hann þar á rímleik, sem engin dæmi
finnast til í stærri kvæðunum. En ef
þessa væri rétt tilgetið væri Skáld-
Sveinn en ekki Jón Arason vafalaust
bezta skáld aldarinnar og þá líklega
skapari þessa skrautlega háttar.
Eitt atriði í Ljómum gæti bent til
þess að þær væri ekki eftir rétt-
trúaðan kaþólskan biskup, því að
maður skyldi ætla að hann mundi
öðrum fremur vaast að fara í þver-
bága við kenningar kirkju sinnar
og boða mönnum villutrú, en það
gerir höfundur Ljóma, hver sem
hann er, þar sem hann lætur Máríu
og Jóhannes postula á efsta degi
Þiggja jafnvel útskúfaða undan
allri hegningu og senda þá í sveit
útvaldra:
Þau frá eg þetta þágu
þýð og Jóhannes hœði
mildust Máría frú,
fólk frá fyrri plágu
af feikna grimmd og æði
að leiða á liknar brú;
þeirra líkn mun lengst um heiminn
ganga,
þau linuðu þannin vora ánauð
stranga,
síðan gjörir oss fjandinn aldri að
fanga,
fastr í ánauð alla æfi langa.
Þótt ég þekki engin dæmi um
slíka sáluhjálp öllum til handa í
kaþólskum sið, þá er alls ekki víst
að slíkt hafi verið einsdæmi á meðan
að Máría var og hét. Dæmið sýnir,
að höfundur Ljóma hefur verið
bjartsýnn maður, og mætti það ein-
kenni vel eiga við Jón Arason eins
og ráða má bæði af sögu þeirri er
af honum gengur og af kveðskap
hans hinum veraldlega. Hann er
glaður, reifur og glettinn næstum
fram í andlát sitt, og eins og Egill
Skallagrímsson og Þórbergur Þórð-
arson hefur hann kunnað þá vanda-
sömu list, að henda gaman af sjálf-
um sér. Þó kunni hann líka að reiða
svipu heimsádeilunnar, ef í það fór: