Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2002, Blaðsíða 197
Flugstjórnarmiðstöð framtíðarinnar
Mörg önnur kerfi eru til staðar í flugstjórnarmiðstöðinni til að auðvelda flugumferðar-
stjórum og fluggagnafræðingum stjórnun flugumferðar. Þar má nefna RDPPS, sem er
skammstöfun fyrir Radar Data Processing and Presentation System, eða ratsjárgagna- og
skjákerfi. RDPPS er kerfi sem er að öllu leyti hannað hér á landi og er gott dæmi um vel
heppnaða þróun sérhæfðs tölvukerfis, þar sem gerðar eru ítrustu kröfur um öryggi og
notendavænt viðmót. Hönnun þess hófst í raun árið 1986, þegar hafist var handa við
þróun gagnasamskiptatölvu fyrir eldra ratsjárkerfi sem þá var í notkun. Vinna við þróun
ratsjárgagnakerfisins hefur staðið nær samfellt allar götur síðan. 1 fyrstu voru þróuð
viðbótar- og varakerfi fyrir eldra ratsjárgagnakerfi sem var í notkun frá 1984 og fram til
1994. Þá tók nýja RDPPS-kerfið alfarið við sem ratsjárgagnakerfi flugstjórnarmiðstöðv-
arinnar. Nýja kerfið, sem hefur verið byggt upp á nettengdum tölvum af nýjustu gerð,
var mun notendavænna og öruggara en eldra kerfið sem var tekið úr notkun. Allur
búnaður nýja kerfisins er tvöfaldur , þ.e.a.s. aðalbúnaður og varabúnaður, en þær kröfur
eru gerðar að einföld bilun í búnaði valdi ekki hnökrum í rekstri kerfisins, þar sem
varabúnaður taki þegar í stað við. Þessi árangur hefur náðst með góðri samvinnu tækni-
manna og flugumferðarstjóra. Kerfið var um langt árabil þróað af Kerfisverkfræðistofu
Háskóla Islands og síðar starfsmönnum Stefju ehf.. Frá árinu 1997 hafa Flugkerfi hf., sem
er þróunarfyrirtæki í eigu Flugmálastjórnar og Háskóla Islands, séð um þróun ratsjár-
gagnakerfisins samkvæmt samningi við Flugmálastjórn.
RDPPS-kerfið tekur við stafrænum ratsjárgögnum frá hinum sex ratsjárstöðvum sem
flugstjórnarmiðstöðin tengist. Kerfið vinnur úr þessum gögnum og gerir svonefnda feril-
reikninga, sem reikna út hraða og stefnu hverrar flugvélar auk þess að ákvarða auðkenni
hennar. Þá gerir kerfið alla útreikninga til að setja megi fram á skjá landfræðilega
stöðumynd í tvívíðu rúmi af þeirri flugumferð sem ratsjárnar sjá hverju sinni. Þessi
stöðumynd er uppfærð fyrir allt ratsjársvæðið á þriggja sekúndna fresti. Flugumferðar-
stjórinn notar gögnin sem birtast með þessum hætti til að tryggja aðskilnað flugvéla og
tií annarra þátta flugumferðarstjórnar. RDPPS býður t.d. upp á hin ýmsu hjálpartæki, s.s.
fjarlægðarmælingar, aðskilnaðarútreikninga, hraðaútreikninga, tímaáætlanir o.s.frv.
Unnið er að gerð sjálfvirks viðvörunarkerfis sem varar við ef hætta er á að loftför nálgist
um of.
A næstu árum er gert ráð fyrir mikilli þróun þessara og annarra kerfa í flugstjórnar-
miðstöðinni. Þannig verður lögð áhersla á frekari samtengingu kerfanna, sem mun verða
að einu heildstæðu flugstjórnarkerfi. Nú þegar er unnið að frekari þróun gagnasamskipta
við flugvélar, sem munu á næstu árum koma í stað hefðbundinna talfjarskipta. Jafnframt
gefur þessi tækni kost á að fá nákvæmari og tíðari upplýsingar um staðsetningu og
fyrirætlanir flugvéla með sjálfvirku tilkynninga- og eftirlitskerfi (ADS), sem hefur verið
staðlað að tilhlutan Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og mun ryðja sér til rúms á
komandi árum, sérstaklega í flugi yfir úthöfunum. Þá verður innan skamms hafist handa
um þróun nýrrar vinnustöðvar fyrir flugumferðarstjóra, sem mun gefa honum kost á að
eiga einfaldari og öflugri samskipti við öll kerfi flugstjórnarmiðstöðvarinnar. Þetta nýja
þróunarverkefni gengur undir nafninu ICE, eða Integrated Controller Environment.
Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar, tók saman.
Kynning og tæknigreinar fyrirtækja og stofnana
1 9 3