Frjáls verslun - 01.04.2007, Qupperneq 19
F R J Á L S V E R S L U N • 4 . T B L . 2 0 0 7 19
gengur nógu vel sitja menn ekki uppi með sárt ennið heldur er tryggt
að upprunalegur höfuðstóll skerðist ekki.“
„Þessi verðbréf eru ekki bundin við hlutabréf eingöngu. Sumir
af viðskiptavinum okkar vilja fjárfesta í gjaldmiðlum, nokkrir í góð-
málmum og enn aðrir í hrávöru. Allt kallar þetta á bæði sérþekkingu
og áhættu umfram það sem margir vilja taka nema ef boðið er upp á
bréf af þessu tagi,“ segir Bo.
Hann heldur áfram: „Tökum dæmi: Segjum að keypt séu
skuldabréf fyrir 80% af verðmæti fjárfestingarinnar og 20% sett í
áhættusamari fjárfestingu. Skuldabréfin bera fasta 5% vexti í þrjú ár.
Verðmæti þessara bréfa er þá 92,6% af heildinni í lokin. Segjum að
lofað hafi verið genginu 106 í lokin. Áhættufjárfestingin þarf þá að
skila (106,0-92,6)/20, eða um 67% af verðmæti sínu, til þess að náist
að uppfylla upprunaleg loforð. Áhættan fyrir seljandann (bankann)
er því ekki mjög mikil. Ef ávöxtunin á áhættuhlutanum er hins vegar
50% á þessum tíma á hlutabréfahlutanum, endar gengið í 122,6.“
Hvernig hyggjast þeir kynna þessa nýjung fyrir íslenskum fjárfestum?
„Við munum bæði hafa samband við einstaka fjárfesta persónulega
og líka boða til kynningarfunda. Þann 7. júní verðum við með
kynningarfund á Hótel Sögu þar sem við förum yfir nokkra af þeim
kostum sem við bjóðum. Þar kynnum við einmitt í fyrsta sinn tvær
tegundir verðbréfa sem við höfum hannað sérstaklega með þarfir
íslenska markaðarins í huga. Við höldum að þetta sé ávöxtunarmögu-
leiki sem hentar vel fjárfestum sem komnir eru yfir miðjan aldur.“
Frekari tengsl?
Ætlar FB eingöngu að bjóða Íslendingum upp á verðbréf af þessu
tagi eða gæti bankinn hugsað sér að bjóða Íslendingum upp á frekari
þjónustu?
Kjeld Mosebo verður fyrir svörum: „Það kemur auðvitað til
greina að veita góðum viðskiptavinum víðtæka þjónustu. Við getum
vel hugsað okkur að veita mönnum bæði víðtækari ráðgjöf og líka
getum við lánað þeim sem uppfylla almenn skilyrði. Við vitum að á
Íslandi eru margir viðskiptavinir sem þurfa alhliða þjónustu og innan
Evrópska efnahagssvæðisins eru engin landamæri fyrir fjármagn. Í
Danmörku höfum við einbeitt okkur að minni og meðalstórum
fyrirtækjum. Við höfum því reynslu af því að þjóna fyrirtækjum af
þeirra stærðargráðu sem er algeng á Íslandi.“
Að síðustu vaknar sú spurning hvort FB óttist ekki að rétta Íslend-
ingum litla fingurinn í ljósi þess að þeir hafa keypt upp mörg fyrirtæki
í Danmörku.
„Við viljum gjarnan fá Íslendinga í hluthafahópinn. Eignaraðildin
að FB er dreifð og í samþykktum okkar er ákvæði um að hver hlut-
hafi megi ekki fara með meira en 0,1% atkvæða á hluthafafundum.
Þetta höfum við gert til þess að hlutabréfin séu ekki háð skamm-
tímasveiflum og spákaupmennsku. Þannig að ef Íslendingar slást í
hóp eigenda verða þeir þar fyrst og fremst vegna langtímaávöxtunar,“
segir bankastjórinn í lokin.
Forstædernes Bank er í glæsilegum húsakynnum nálægt
Íslandsbryggju. Svo skemmtilega vill til að í næsta húsi er nýtt og
fallegt hótel, Islands Hotel.
B A N K A V I Ð S K I P T I
Bo Schmidt, framkvæmdastjóri fjárfestinga, og Kjeld Mosebo
Christensen, bankastjóri Forstædernes Bank.