Frjáls verslun - 01.07.2009, Blaðsíða 30
30 F R J Á L S V E R S L U N • 7 . T B L . 2 0 0 9
forsíðu grein SPrOtaFYrIrtÆkI
hvað er sagt um mig á blogginu? Er öllum illa við mig eða mitt fyrirtæki eða eru þar ljósir punktar? Og hvað segja aðrir fjölmiðlar? Til að fá svör við þessu er tvennt
til ráða: Að lesa allt bloggið og allar greinar sjálfur. Eða að láta hið
gervigreinda Clara gera það fyrir þig meðan þú bloggar eitthvað ljótt
um náungann.
Clara er barn hóps ungs fólks, sem á það sameiginlegt að vera
nýskriðið úr háskóla og hefur áhuga á tölvum og þá sérstaklega
gervigreind. Hugmyndin er gömul og margreynd. Það er ekkert
nýtt við að fyrirtæki eða jafnvel einstaklingar láti vaka yfir umfjöllun
fjölmiðla fyrir sig. Lengi hefur þetta verið gert með skærum, lími
og ljósritunarvél. Greinar voru klipptar út blöðunum, þær límdar á
arkir og ljósritaðar.
Þetta var handavinna sem gekk vel áður en tölvur urðu miðlægar
í allri fjölmiðlun. Nú er öldin önnur. Einungis lítið brot af því sem
sagt er opinberlega birtist í einhverju áþreifanlegu formi sem hægt er
að klippa, líma og ljósrita. Þarna kemur Clara til skjalanna. Clara er
ekki kvenmannsnafn í þessu samhengi heldur skammstöfun á enska
heitinu „Collective Large-scale Affect Research and Analysis“ og
beygist ekki.
Fylgir umræðunni á Netinu
„Öllum er ljóst að umræða, til dæmis á blogginu, hefur mikil áhrif,“
segir Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, verkfræðingur og einn
foreldra Clara. „Bloggið er þó ekkert úrtak sem sýnir almennar
skoðanir fólks, en tónninn í blogginu hefur mikil áhrif og skjót.
Þess vegna er áhugi á að fylgjast með því sem sagt er.“
Gunnar bendir á að ef óánægður neytandi segir kunningjum
sínum frá slæmri reynslu af fyrirtæki berst sagan til fárra manna
og dreifist hægt. Fari sama saga á flot á Netinu er hún komin
til ótölulegs fjölda fólks á skömmum tíma. Það er líka vitað að
reynslusögur hafa miklu meiri áhrif en auglýsingar.
Þeir hjá Clara hafa einbeitt sér að gerð forrits sem nýtir
gervigreind við að greina umræðu í öllum fjölmiðlum Netsins. Þetta
hefur í fyrstu verið hugsað fyrir fyrirtæki. Til þessa hafa þeir unnið
með þremur fyrirtækjum að umræðueftirlitinu. Nú er einnig unnið
að lausn sem einstaklingar, til
dæmis stjórnmálamenn, geta
nýtt sér.
Enn ráða tölvur ekki
við að greina tilfinningar í
umræðunni en með gervigreind
er hægt að bera kennsl á hvaða
fyrirtæki eru nefnd og hvaða
fólk. Þeir hjá Clara segja að
hugbúnaðurinn greini á milli
þess sem sagt er um hana sjálfa og einhverjar Klörur úti í bæ.
Gunnar segir að Clara sé einskonar þversnið af bakgrunni
foreldra sinna. Þarna koma verkfræðingar, sálfræðingar,
tölvufræðingar, markaðsmenn og fyrrum starfsmenn
fjármálafyrirtækja við sögu. Styrkir hafa komið frá Rannís og
samvinna hefur verið við gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík.
Þá hefur stuðningur Háskóla Íslands verið verulegur.
Clara á leið út í heim
Núna er fyrirtækið komið að þeim mörkum að fara að selja vöru
sína. „Við höfum kynnt hugmyndina fyrir nokkrum fyrirtækjum
og erum á því stigi að fara með kerfið á markað,“ segir Kári Þór
Rúnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri markaðsmála hjá 66° Norður.
Hann sinnir nú viðskiptaþróun hjá Clara.
Á síðasta ári var farið með Clara í alþjóðlega frumkvöðlakeppni
kennda við Ventura Cup í Kaupmannahöfn. Þar vann hún til
verðlauna og þeir hjá Clara segjast hafa komist í góð sambönd við
aðra nýsköpunarmenn.
Breyttar aðstæður í fjármálaheimi Íslands hafa haft áhrifin
á þróunarvinnuna hjá Clara. Núna starfa þar fjórir fyrrverandi
bankamenn. Fyrir hrun gátu veikburða sprotar ekki keppt við
bankana um starfsfólk. Núna er hæft fólk á lausu.
„Það er líka miklu skemmtilegra að vinna við þetta en í banka,“
segir Kári Þór. Auk þess er nú hægt að fá góðar notaðar tölvur fyrir
lítið og einnig húsgögn eftir bankahrunið.
Ráðið sem þeir félagar gefa öðru sprotafólki, nú þegar Clara er að
verða tveggja ára, er að tala um hugmyndina við aðra og leita ráða
hjá öðrum sem hafa reynslu af að koma sprota á legg.
„Bloggið er ekkert
úrtak sem sýnir
almennar skoðanir
fólks, en tónninn í
blogginu hefur mikil
áhrif og skjót.“
gunnar hólmsteinn og kári Þór hjá umræðueftirlitinu Clara:
Clara les bloggið fyrir þig
Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson og Kári Þór Rúnarsson hjá Clara.