Tímarit Máls og menningar - 01.09.1954, Blaðsíða 43
ÞRÍR Á BÁTI
153
Við höfðum allir raðað okkur á bátinn, Pétur, ég og strákarnir, en nú
brá svo við að maðurinn í svarta jakkanum lagði frá sér hnífinn og
kom niður í vörina til að hjálpa okkur að ýta. Hann gerði þetta eins og
ekkert væri sjálfsagðara, og Pétur þáði aðstoð hans eins og ekkert væri
eðlilegra, og kom mér þetta dálítið á óvart eftir allt sem á undan var
gengið, en svo skildi ég að hér var um að ræða þau fornu lög sem ríkja
ofar öllurn leynisamningum, ofar öllum Mórum, allri keskni, hin óskráðu
lög íslenzkra sjómanna um gagnkvæma hjálp við ýtingu og uppsetningu
báta, lögin sem frá öndverðu hafa verið stjórnarskrá Selsvarar.
En strax og báturinn var kominn á flot, sneri Pétur sér að manninum
í svarta jakkanum og sagði:
„Það er nú ráð mitt að þú hafir hjá þér þinn eigin Móra, meðan við
förum út að sækja gnóttir hrokkelsa eins og Guði þóknanlegir menn.
Enda mun þér ekki af veita aðstoð hans við að flaka grásleppuna, þó
hann sé án efa örvhentur eins og húsbóndinn.“
Maðurinn í svarta jakkanum fór þegjandi upp á klappirnar aftur og
hélt áfram að flaka grásleppuna með vinstri hendi. Og þegar við vorum
komnir vel út úr vörinni og gátum tekið stefnuna beint á miðin, þá sagði
Pétur:
„Sannaðu til, þó mínir fætur kólni, Móri er með. Ég finn það á mér.
Og er ekki séð fyrir endann á þessum róðri.“ — Setti síðan á fulla ferð.
*
Mér veittist sá heiður að stýra út, en Pétur sat á miðþóftu, horfði
fram og kvað rímur.
„Birtings mela essum á
orku vel með knáa,
Stóra-Seli sækjum frá
sjós á hvelið bláa.“
Hann vísaði mér stefnuna með snöggum bendingum, og ég lét vinstri
öxl hans miða í Snæfellsjökul en þá hægri í endann á Akrafjalli.
„Byljur sungu banaraust
brims í þungum kalda;
ára lunga hrakti hraust
heli þrungin alda.“