Tímarit Máls og menningar - 01.05.1958, Síða 22
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
minnkun útaf getuleysi mínu á þessu
örlagaríka ferðalagi.
Sveinn kom þó tveimur hásetunum
undir og sló hausum þeirra allóvægi-
lega niður í þilfarið, en sá þriðji
sparkaði í hann með stígvéluðum
löppunum.
í þessu kom stýrimaður aðvífandi
og spurði Hva Fanden gengi hér á.
Eg flýtti mér til hans, togaði í ermi
hans og benti honum á köttinn og
sagði að hásetinn hefði fleygt honum
í sjóinn og þessvegna hefði Sveinn
lent í áflogum, annars væri hann al-
veg meinlaus.
Til allrar hamingju hlustaði stýri-
maður á vörn mína fyrir félaga minn
og spurði:
Átti hann köttinn?
Ég gat ekki fullyrt það.
Hann skipaði áflogahundunum
hranalega að hætta og urðu þeir að
hlýða yfirboðaranum þó þeim væri
það sýnilega nauðugt. Svo flýtti hann
sér upp á brú til skipstjóra. Eftir
stutta stund stöðvaðist skipið og
mönnuðum báti var skotið út. Mönn-
unum tókst giftusamlega björgunar-
starfið og náðu kettinum áður en
hann drukknaði.
Þegar þeir komu með hann upp á
skipið tók Sveinn hann af þeim og
dugðu engin mótmæli. Hann tróð
honum eins og hann var, rennandi
blautum, inn á sig og hneppti að sér
vaðmálstreyjuna þannig að hausinn
á kisu stóð útúr á milli hnappa. Svo
gekk hann afturá, greip á leið sinni
járnflein sem lá á þilfarinu, studdi
baki að borðstokknum og mundaði
vopnið. Það var auðséð að hann ætl-
aði að selja líf þeirra kisu dýru verði.
Síðan var ferðinni haldið áfram,
skipið eimdi út fjörðinn á fullri ferð
og allt virtist í röð og reglu og slétt á
yfirborðinu. En ég efaðist ekki um að
undir niðri sauð heift og hatur hjá
þeim sem töpuðu orrustunni, ég sá
það á svip þeirra og augnagotum. Um
Svein treysti ég mér ekki að dæma,
hafi nokkurt hafrót átt sér stað í sálar-
djúpi hans sást það ekki á svipnum,
hann var útþurrkaður eins og venja
var til.
Eftir tvo klukkutíma vorum við
komnir á áfangastað. Þegar búið var
að setja landganginn fleygði Sveinn
járninu og ætlaði á land. Einn háset-
inn greip til hans og skipaði honum
að fá sér köttinn, for Fanden.
Ég held ég hafi aldrei séð Svein
dauða flýta sér meira í eitt skipti en
annað, það var eins og hreyfingar
hans væru stilltar á vissan hraða. Ég
var því alveg undrandi þegar hann,
með snöggu viðbragði, hratt norð-
manninum svo hann tók stór bakföll
og hafnaði loks sitjandi á þilfarinu,
en hljóp með kisu niður landganginn
og upp alla bryggju. Ég náði honum
ekki fyrr en uppi í þorpinu og þá
héldum við heim til ættingja hans.
Hann gaf enga skýringu á hinum
rennvota félaga sínum og varð ég að
124