Tímarit Máls og menningar - 01.12.1976, Blaðsíða 24
Tímarit Máls og menningar
rátt hugsa börnin um þennan sívinnandi mann sem fyrirvinnu, þann sem
leggur til peningana til að uppfylla nauðþurftir þeirra og fullnægja óskum
þeirra. En þau snúa sér sjaldan beint til hans. Oskir sínar ræða þau fyrst
og fremst við móðurina, sem annast þau og er alltaf heima og til taks
þegar þeim liggur eitthvað á hjarta. Hún verður því milligöngumaður
milli þeirra og fyrirvinnunnar, og kynni föðurins af börnunum eftir að þau
taka að vaxa og verða ofurlítið sjálfstæðar eiginhagsmunaverur, eru því
að lang-mestu leyti fengin af þessari milligöngu. Þetta milligöngustarf
konunnar gengur ekki ævinlega árekstralaust, enda er þess varla von, svo
ónáttúrlegt sem það er. Ekki sízt vegna þess, að fjölskyldufaðirinn verður
því ókunnugri börnum sínum sem þau verða eldri. Ekki þörfum þeirra og
þeim óskum, sem fullnægt verður með peningaútlátum, heldur manneskj-
unum í þeim. Alveg eins og börnin kynnast sára sjaldan manneskjunni í
þeim karlmanni, sem hefir getið þau og unnið fyrir þeim baki brotnu. Og
öll fjölskyldan á það sammerkt, að hún flýr heimilið eftir beztu getu, í
von um að finna fremur til mannleika síns í einhverjum öðrum stað.
Þegar karlmanninum er orðið það Ijóst, að hann þekkir ekki þessar
mannverur, sem eru börn hans, fer hann að eins og konan, þegar hún upp-
götvar ófrelsi sitt í fjölskyldufélaginu: hann ræðst á maka sinn. Það hlýtur
að vera hún, sem hefir spillt fyrir honum við börnin, a. m. k. ekki kennt
þeim að meta hann og virða á réttan hátt. Ef til vill segir hann þetta ekki,
en hann færir rök að því með sjálfum sér. Konan hefir dekrað við börnin
á hans kostnað, það er ekki nóg með allt það sem hann hefir á sig lagt
til að geta dekrað við hennar óskir og uppátæki, heldur hefir hún spillt
börnum þeirra svo með dálæti sínu, að þeim þykir aðeins vænt um hana.
Og oftast eru þau allt öðruvísi en hann hefir hugsað sér að börn yrðu eða
ættu að vera.
Þessi fjölskylda sem ég hefi lýst hér er ekki einsdæmi, heldur hið al-
genga. Þyki einhverjum ofmælt, þá segi ég: Lítið í kringum ykkur, virðið
fyrir ykkur andlegt sambýli þeirra fjölskyldna sem þið þekkið, dragið frá
samheldnina um að vinna fyrir hlutum sem keyptir verða fyrir peninga
og horfizt í augu við það, sem þá verður eftir af eindrægni og ástríki í
þessari „smækkuðu mynd þjóðfélagsins“, eins og fjölskyldan oftlega er
nefnd til að auglýsa gildi hennar fyrir samfélagið. Eg fullyrði, að nær því
í hverri einustu fjölskyldu mun faðirinn reynast utangarðshluti. Reyndar
veit ég að til eru einstaklingar, sem hafa til að bera það sálarþrek og ósér-
plægni, að þeim tekst að yfirstíga allar þær hindranir sem lagðar eru í
326