Tímarit Máls og menningar - 01.09.1978, Page 15
Þórarinn Eldjám
Fáein orð um Wolf Biermann
Wolf Biermann fæddist í Hamborg 1936. Faðir hans var hafnarverka-
maður þar í borg og var myrtur af nasistum fyrir tvöfalt afbrot: Hann
var bæði gyðingur og kommúnisti.
Biermann flutti til Austurþýskalands 1953 og kom þar víða við, nam
fræði og starfaði sem aðstoðarmaður í leikhúsi Brechts. Þar kom að hann
hóf yrkingar sjálfur og fór að troða upp með gítar í kjölm fyrir ýmis konar
smáhópa í báðum hlutum Þýskalands. Söngvar hans vöktu strax eftirtekt,
en þó hann beitti mjög geiri sínum að kapítalismanum kom fljótlega í
ljós að hér var ekki á ferðinni neinn lofsöngvari hins opinbera í Austur-
þýskalandi, heldur kaus hann að fara með gems um þá afskræmingu
sósíalisma sem valdhafar þar eystra halda að fólki í skjóli skrifræðis.
Biermann hefur ævinlega gagnrýnt valdhafana „frá vinstri“, þ. e. hann
hefur alla tíð verið talsmaður sósíalisma og lengst af virðist hann hafa
haldið í þá von að austurþýska kerfið sé sósíalismi. Gallaður sósíalismi
sem hægt sé að bæta. Skal hér enginn dómur lagður á þá skoðun. En
þrátt fyrir þetta var háð hans stærri biti en valdhafarnir treystu sér til að
kyngja og frá 1962 var honum bannað að koma opinberlega fram í Austur-
þýskalandi.
Frá þeim tíma kaus Biermann að starfa undir yfirborðinu, einbeita sér
að því að lifa af og „bíða betri tíma“. Ekkert var fjær honum en að langa
vestur yfir múrinn, enda vissi hann vel að stjórnvöldum eystra hefði verið
mjög lítil eftirsjá að honum. Hann leit á Austurberlín sem þann stað þar sem
hann ætti sín verk að vinna. Hann orti af kappi og fékk bækur sínar út-
gefnar í Vesturþýskalandi á forlagi Wagenbachs. Fyrsta bókin, Gaddavírs-
harpan (Die Drahtharfe), kom út 1965 og varð ásamt öðru til þess að
sett voru lög í Austurþýskalandi sem kváðu á um það að austurþýskum
höfundum skyldi óheimilt að gefa úr bækur í Vesturþýskalandi án leyfis
austurþýskra yfirvalda. En allt kom fyrir ekki, bækur Biermanns héldu
áfram að koma út og auk þess hljómplötur. Skáldfrægð hans jókst og
bækur hans og plötur náðu æ meiri útbreiðslu á Vesturlöndum.
237