Tímarit Máls og menningar - 01.10.1979, Page 6
Tímarit Máls og menningar
kraðaki, sem utaná þeim hangir. Enda heyrast verkalýðsleiðtogar núorðið mun
sjaldnar hallmæla stóratvinnurekendum eða kaupsýslujöfrum en „mennta-
rnönnum". Þetta eru í þeirra munni miklu fremur orðnir „bestu menn“, einsog
þeir sjálfsagt eru margir hverjir í sínu einkalífi.
Misskilningurinn um hátekjur menntamanna stafar sumparr af því, að
margir háskólagengnir menn hafa gerst sjálfstæðir atvinnurekendur, og mætti
því gagnrýna þá sem slíka. Verkfræðingar setja upp eigin fyrirtæki eða gerast
verktakar, lögfræðingar og viðskiptafræðingar verða kaupsýslumenn, iðnrek-
endur eða útgerðarmenn. Tekjur lækna helgast aðallega af lögmálinu um
framboð og eftirspurn í heiminum.
En allur þorri óbreyttra háskólamanna, sem einungis lifa af launum sínum,
t.d. hjá ríkinu, er ekki stórum betur settur tekjulega en verkamenn á hærri
launatöxtum, hvað þá sjómenn og iðnaðarmenn. Og það myndi nær engu breyta
fyrir verkamenn þótt laun þeirra væru jöfnuð út. Jafnvel prófessorar, sem
þráfaldlega er vitnað til sem hápunkts allra hátekjumanna, geta yfirleitt ekki
borist meir á en svo að eiga þokkalega íbúð og miðlungsbíl. Ef hægt er að
tala um forréttindi þeirra, felast þau miklu fremur í því, að venjulega njóta þeir
nokkurrar lífsfyllingar í sínu starfi. Og það er auðvitað meira virði en peningar.
Síðustu tilgátuna þyrði ég ekki að bera á borð, ef ég hefði ekki hlotið
skilning á henni hjá einni elstu og bestu verkalýðskempu landsins. En hún er
sú, að sakir sigursællar baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir því, að börn
alþýðumanna gætu notið skólamenntunar á borð við aðra, hafi flestir þeir,
sem nokkur töggur er í, lokið einhverju námi á síðustu áratugum. Þetta hefðu
gömlu verkalýðsforingjarnir líka gert, hefði þeim staðið það til boða, þegar
þeir voru ungir.
Eftir væru þá að mestum hluta þeir, sem vegna nennuleysis eða annarra
vandkvæða hafa ekki getað brölt gegnum skóla, en líta hina öfundaraugum af
einhverjum sökum. Hersetan og Natóaðildin virðast ekki skipta þetta fólk
miklu máli. Og þótt verkalýðsforingjarnir sjálfir séu ekki endilega af sama
sauðahúsi, gæti verið skiljanlegt, að þeir túlkuðu að einhverju leyti sjónarmið
þessara umbjóðenda sinna.
Ég vona af einlægni, að þessi tilgáta sé röng og allt sinnuleysið megi t.d.
slcrifa á hinn alltof langa vinnutíma. Ég yrði manna fegnastur, ef mér fyndist
ég þurfa að biðjast afsökunar á að hafa sett hana fram. Því að í rauninni er
vonlítið um framgang í baráttunni gegn hersetunni sem og fyrir öðrum sam-
félagsumbótum án þátttöku og samvinnu alls fjöldans, hvernig sem menn
leyfa sér að flokka hann niður.
En það er a.m.k. fullvíst, að sl. 30 ár hefur miklu stærri hluti „menntamanna"
en verkamanna verið virkur í andófi gegn hersetu á íslandi.
Árni Björnsson.
252