Tímarit Máls og menningar - 01.10.1979, Qupperneq 14
Tímarit Máls og menningar
að við ísland væri ekki eftir neinu að slægjast nema þorski, enda höfum
við öldum saman þurft að heyja þorskastyrjaldir. Innri styrkur okkar
hefur verið lítill, vanmetakenndin yfirgnæfandi, skáldin hafa beðið for-
sjónina að veita oss fáum, fátækum, smáum líkn í lífsstríði alda. Þess
vegna höfum við orðið auðveld bráð stórveldinu sem ákvað að gleypa
okkur fyrir meira en öld og höldum áfram að tönnlast á því öfugmæli
að hernumin þjóð geti kallað sig sjálfstæða.
Ollu máli skiptir að Islendingar geri sér það ljóst, áður en það er um
seinan, að smæð okkar er ekki veikleiki heldur styrkur. A flandri mínu
um heiminn hef ég komist að þeirri niðurstöðu, að mannlíf sé því eðli-
legra og frjálsara sem þjóðfélög eru smærri. Svo að ég taki dæmi af Norð-
urlöndum hef ég hvergi kynnst geðslegra mannlífi en á Alandseyjum,
svipuðu máli gegnir um Færeyjar og einnig Island. Hjá þessum smá-
þjóðum öllum er ekki nein andleg stéttaskipting lengur, allir telja sig
réttilega jafningja annarra, hvað sem líður þjóðfélagsstöðu og efnahag,
og skilin á milli þjóðfélagsstétta hafa raunar verið á sífelldu reiki síð-
ustu áratugi. Ekki er unnt að hugsa sér meiri flónsku en að heimfæra
stéttaátök í stórveldum upp á Island á sjálfvirkan hátt.
Smæð okkar er ekki veikleiki heldur sty'rkur. Okkur ber vissulega að lifa
sífelldlega í straumum okkar tíðar, en jafnframt þurfum við að eiga
langsærri sjónarmið. Trúarjátning okkar verður ævinlega að vera fléttuð
úr þáttum þeim sem nefnast land, þjóð og tunga. Þeir þættir eru sameig-
inleg arfleifð okkar, og framtíð okkar er bundin því að við höldum tryggð
við hana um alla eilífð. Landið okkar býr ekki aðeins yfir gögnum og
gæðum, heldur samfelldum undrum ef við kjósum okkur legurúm við
titrandi hjarta þess en látum okkur ekki nægja að glápa á það gegnum
bílrúður. Við vitum meira um sögu þjóðar okkar en flestir aðrir en þó
grillum við aðeins í upphafið, hið forna yfirráðasvæði Kelta, Norðmanna
og Mongóla; við erum sem betur fer kynlegt bland þjóða. Tungan er það
sem gerir okkur að þjóð, og hún hefur sannað þanþol sitt og getu einnig
á þessari öld. Við getum orðað hugsanir á þann hátt á tungu okkar, að
árangurinn stenst samjöfnuð við það besta sem aðrar þjóðir megna. Við
getum ekki aðeins haldið til jafns við aðra heldur og orðið öðrum fyrir-
mynd, ef við höfnum hernámi og kostum hugann að herða, þrátt fyrir
kjarnorkugorkúlur, með órofa tryggð við þrenninguna sönnu og einu:
land, þjóð og tungu
260