Tímarit Máls og menningar - 01.10.1979, Page 19
Kvað við uppreisnarlag
lands í Knud Rasmussens lýðháskólanum í Holsteinsborg, lagði eftir það
land undir fót, fór um alla bæi á vesturströndinni sunnan frá Góðvon
norður í Diskóflóa, sýndi kvikmyndir frá Víetnam og hélt erindi um ný-
lendustöðu Grænlands. Samkomurnar voru fjölsóttar og áttu efalaust sinn
þátt í þeirri þjóðlegu vakningu, sem færði Moses Olsen sigur í þjóðþings-
kosningunum 1971 og fleytti mörgum ungum frjálslyndum mönnum inn
í landsráðið sama ár. Haustið 1970 hélt Arqaluk aftur til Hafnar og hóf
nám í félagsráðgjöf. Þar var hann mjög virkur í samtökum grænlensks
æskufólks, m. a. formaður KIA (Ráðs ungra grænlendinga) í tvö ár, en
undir forystu þess „hernámu“ ungir grænlendingar Grænlandsmálaráðu-
neytið í Kaupmannahöfn vorið 1975 til að mótmæla veitingu danskra
stjórnvalda á leyfum til fjölþjóðlegra auðfélaga að hefja tilraunaboranir
eftir olíu á grænlenska landgrunninu. Sumarið 1971 var Arqaluk á Ausmr-
Grænlandi með danska kvikmyndamanninum J0rgen Roos við töku kvik-
myndarinnar Udflytterne, sem sýnd var nokkrum sinnum í Norræna hús-
inu á grænlensku menningarvikunni vorið 1976. Sumarið 1972 var græn-
lenski kolanámubærinn Qullissat lagður niður að fyrirskipan danskra stjórn-
valda. Arqaluk og danski kvikmyndatökumaðurinn Per Kirkeby voru á
staðnum, þegar fólkið var að hrekjast úr heimkynnum sínum, og gerðu
um þessa atburði heimildakvikmyndina „Da myndighederne sa stop“, sem
einnig var sýnd á grænlensku menningarvikunni í Norræna húsinu. Sum-
arið 1976 lauk Arqaluk háskólanámi og hefur síðan starfað sem félags-
ráðgjafi í Egedesminni. Pólitíska púðrið í honum er síður en svo tekið að
vökna. Hann hefur tekið virkan þátt í landsráðstefnum grænlenskrar æsku
undanfarin þrjú sumur og var einn af hvatamönnum að stofnun nýs stjórn-
málaflokks, sem hljóp af stokkunum í fyrra. Það er fámennur hópur rót-
tæklinga, sem sætta sig ekki við heimastjórn í Grænlandi undir danskri
ríkisforsjá, heldur krefjast óskoraðrar sjálfstjórnar á grænlenskum grund-
velli, stefna að aðskilnaði við Danmörk og fullu sjálfstæði Grænlandi til
handa. Arqaluk hefur tvívegis komið til Islands, las m. a. úr Ijóðum sínum
á Grænlandsvikunni.
265