Tímarit Máls og menningar - 01.10.1979, Blaðsíða 130
'Tímarit Máls og menningar
Meginatriðin í grein Matticks eru að Lenín hafi verið kreddufastur millistéttar-
maður sem stefndi á að koma á flokkseinræði og ríkisforsjá með valdaráni vel
skipulagðs flokks, eða samsærishóps. Til að sýna fram á þetta meðhöndlar hann rit
Leníns og sögulegar staðreyndir af sömu fagmennsku og stalínískir prófessorar. Sá
grunur læðist reyndar að manni að Mattick rangtúlki ekki Lenín alltaf viljandi. Sú
staðreynd, að Mattick rangtúlkar oft hugmyndir Leníns þannig að hann fær út
niðurstöðu sem hann sjálfur er sammála, bendir til þess. Þegar þess er gætt að
Mattick gerir kröfu til þess að á hann sé litið sem lærðan marxista, þá verður fá-
fræði harla léttvæg afsökun. Það sama gildir um þýðendur greinarinnar sem lofa
Mattick sem einn „þekktari fræðimann í þeirri endurreisn og framþróun marxism-
ans sem átt hefur sér stað síðastliðin 10—15 ár“.
Það merkilegasta við grein Matticks eru þó ekki rangtúlkanir hans á hugmyndum
Leníns. Það merkilegasta er að í eina skiptið sem hann setur fram ákveðna pólitíska
afstöðu í grein sinni, þá eru skoðanir hans afskræming á verstu dylgjum hans í
garð Leníns.
I greininni í TMM ræðst Mattick hörkulega á Trotský fyrir að gagnrýna Mars-
uppreisnina í Þýskalandi árið 1921 og telur ummæli Trotskýs sönnun þess að
„eftir 1921 starfaði 3ja Alþjóðasambandið einungis með gagnbyltingarsinnuðum
hætti“. Gagnrýni Trotskýs fólst í því að benda á að Mars-uppreisnin var uppreisn
minnihluta verkalýðsstéttarinnar, sem mætti andstöðu eða hlutleysis meirihlutans.
Þegar Mattick loksins kemur fram með pólitískar skoðanir, þá hverfa öll tengsl
við ráðskommúnisma og sjálfsskipulagningu (spontanism), sem áður voru notuð
gegn ímynduðum skoðunum Leníns. I grein sinni í TMM segir Mattick að verk-
efni byltingarsinna í Þýskalandi eftir ósigur Mars-uppreisnarinnar hafi verið „að
undirbúa uppreisnina". Skömmu síðar bætir hann við: „Þar eð enn var byltingar-
ástand hlutlægt séð(!) skyldi haldið áfram að byggja upp byltingarsannaðar skipu-
lagssveitir og sömuleiðis að eyðileggja hefðbundna verkalýðsskipulagningu.“!!
„Byltingarsinnaðar skipulagssveitir“, sem „undirbúa uppreisnina". Hvað eru það
annað en litlir samsærishópar? Auk þess: Hvað er átt við með orðunum „að eyði-
leggja hefðbundna verkalýðsskipulagningu"? Minnir þetta ekki óþægilega mikið á
þá litlu hópa hermdarverkamanna sem í dag ráðast á skrifstofur og fundi verka-
lýðsfélaga og pólitískra flokka verkalýðsstéttarinnar í Frakklandi, Ítalíu og víðar?
Það er sorglegt að þeir sósíalistar hér á landi, sem hafa orðið fyrir áhrifum frá
þeim straumum innan vinstri hreyfingarinnar sem eru andvígir leninismanum og
líta á Sovétríkin sem kapítalísk, skuli ekki hafa fundið skárri fulltrúa fyrir stefnu
sína en Mattick. Slíkir menn eru þó til.
Islensk vinstrihreyfing þarf svo sannarlega á því að halda að vandað sé til þeirrar
litlu fræðilegu umræðu sem hér á sér stað. Grein Matticks er gott dæmi um hvað
ber að forðast í þeim efnum.
Asgeir Dantelsson.
316