Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Page 122
Tímarit Máls og menningar
því að hann skyldi ekki missa sjónar á spurningunum, þó að hann þættist hafa
höndlað einhver svör. Skáldverk hans bera vitni um látlausa, næstum því
örvæntingarfulla leit að sannleikanum og ég hika ekki við að fullyrða, þó að það
komi eflaust mörgum einkennilega fyrir sjónir, að þær spurningar sem hann
glímdi við hafi umfram allt verið af siðferðislegum og jafnvel trúarlegum toga
spunnar. En eins og allir miklir sannleiksleitendur ætlaðist Brecht til að aðrir
fylgdu í fótspor hans og yrðu einnig aðnjótandi þeirrar visku sem hann taldi sig
hafa fundið. Þess vegna renna efahyggjan og sannleiksboðunin saman á mjög
einkennilegan hátt í Brecht og takast á um völdin í allri sköpun hans. E. t. v.
finnur efahyggjan sér bestan farveg í ljóðlist hans, en sannfæringin í kenningum
hans og gagnrýni. Og i því sem fer hér á eftir ætla ég mér það eitt að gera tilraun
til að svara spurningunni hvort þær kenningar, sem Brecht setti fram um
leikhúsið, búi yfir einhverju almennu gildi enn i dag eða hvort aðeins sé
raunhæft að líta á þær sem persónulega tilraun hans til að ná betri tökum á eigin
listsköpun. Eg er m. ö. o. að spyrja þess, hvort leikhúslistafólk nútímans sé á
réttri leið þegar það hefur stefnumið Brechts og aðferðir að leiðarljósi í starfi
sínu nú.
Kveikjan að tilraunum Brechts til að finna nýtt leikhúsform var óánægja
með þá meðferð sem leikrit hans fengu í þýsku leikhúsi samtimans. Leikstíllinn
sem ríkti á þýsku leiksviði á þessum tíma var einhvers konar sambland af
natúralisma og tilgerðarlegum hátiðleika sem hæfði lítt því rustafengna and-
rúmslofti sem einkennir elstu leikrit Brechts. Að áliti hans hafði hið borgaralega
leikhús beðið listrænt gjaldþrot, þar sem það skorti allt samband við áhorfend-
urna, hefði engu hlutverki að gegna og væri ofan á allt annað hundleiðinlegt.
I skrifum sínum um leikhús frá Berlinarárunum á þriðja áratugnum segir Brecht
að menn eigi að sjá sýningar á leikritum hans með svipuðu hugarfari og þeir fari
á fótboltavöll, þar sem allir þekki leikreglurnar fyrirfram og komi til þess eins að
njóta góðs leiks. Hann talar með fyrirlitningu um þá áhorfendur sem fari í
leikhúsið til að láta hræra í tilfinningum sínum og hann kveðst aðeins skrifa
leikrit fyrir þá sem komi í leikhúsið með gagnrýnu hugarfari og vilji ekki sjá þar
annað en algerlega hlutlæga mynd af veröldinni. Leikhúsið átti með öðrum
orðum að sýna mönnum heiminn eins og hann væri í raun og veru og láta þeim
sjálfum eftir að draga ályktanir og taka afstöðu til atburðanna á sviðinu. Það átti
einungis að höfða til áhorfandans sem hugsandi veru, en láta öll tilfinningaáhrif
lönd og leið. Þessi skynsemishyggja er að vísu ekki jafnherská í ýmsu sem Brecht
skrifaði síðar um leikhús, en hún ber engu að síður kenningar hans uppi að
verulegu leyti.
244