Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Blaðsíða 125
Brecht og Berliner Ensemhle
við það sem verið var að sýna, en birtu honum það þó í nýju og óvæntu ljósi.
Leikarinn varð að vera reiðubúinn til að fórna sálfræðilegum trúverðugleika til
að sýna áhorfendum þær hliðar á mannlegri hegðan sem ef til vill lágu ekki í
augum uppi i daglegum samskiptum. Þá leiktækni sem Brecht vildi nota í þessu
skyni kvaðst hann m. a. hafa fengið að láni úr ýmsum ævafornum asískum
leikhúsformum, en gefið nýjan tilgang. Höfuðmarkmið hans með þessum
firringarbrögðum var að koma áhorfendum í skilning um að framferði manna
væri að miklu leyti félagslegum skilyrðum háð og að með því að breyta
samfélagsháttunum myndi margt sem áður hefði virst óumbreytanlegt í sam-
skiptum manna taka stakkaskiptum. Leikarinn mátti því ekki beina athygli
sinni og áhorfandans inn yfir einhver lítt könnuð sálardjúp, heldur varð hann að
afhjúpa þá þjóðfélagsafstöðu sem athafnir persónunnar endurspegluðu eða
leyndu. Um leið legði hann fyrir áhorfendur skoðanir sínar og mat á þessari
persónu og hvetti þá þannig sjálfa til að taka afstöðu til hennar. Aðalatriðið var
að áhorfandinn fengi nýja sýn á hluti sem hann hefði ekki áður fundið neitt
athugavert við, og við það varð túlkun leikarans að aðstoða hann. í hinu epíska
leikhúsi mátti ekkert virðast sjálfsagt og óumbreytanlegt, heldur varð allt að
birtast sem undirorpið breytingu og þróun.
Skrif Brechts um leikhús, leikritun og leiklist eru mikil að vöxtum og
fullyrðingar hans eru oft óljósar og sé vel að gáð má jafnvel finna í þeim
mótsagnir. Þær eru skipulegast settar fram í Litilli stefnuskrá fyrir leiklistina,
Kleines Organon fúr das Theater, sem Brecht samdi í Sviss árið 1948, skömmu
áður en hann hélt til Austur-Þýskalands. Þær hafa haft mjög mikil áhrif á allt
vestrænt leikhús og margir leikhúslistamenn hafa reynt að tileinka sér aðferðir
og stíl hins epíska leikhúss. Þetta hefur gengið misjafnlega vel; ekki síst af því að
leikarar hafa átt erfitt með að ná valdi á hinni epísku leikaðferð. Brecht gramdist
oft mjög að sjá hvernig leikarar lifðu sig inn i persónur hans i stað þess að
afhjúpa þær og lögðu þannig áherslurnar á allt annan hátt en hann hafði sjálfur
ætlast til. Til þess að koma í veg fyrir slíka misnotkun á verkunum lét hann gera
svonefndar „módel-bækur“ um margar seinni uppfærslur sínar, þar sem þeim er
lýst í smáatriðum og félagsleg merking þeirra útlögð. Það er vafasamt að þessar
bækur hafi leitt til annars en fátæklegrar stælingar og yfirborðslegrar kreddu-
festu. Mönnum hefur nefnilega of oft viljað gleymast að kenning Brechts miðar
öll að því að hafa tiltekin áhrif á þá sem horfa á sýninguna; fá þá til að
endurskoða viðhorf sín, gagnrýna ríkjandi þjóðfélagshætti, finna raunhæfar
leiðir til að breyta sjálfum sér og veröldinni. En það er erfitt að sanna að
stílbrögð hins epíska leikhúss nægi til þess e'm að knýja áhorfandann til um-
247