Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Blaðsíða 75
Herrann
í sögunni eru öll hin heilögu tákn kristninnar, bóndinn sem plægir jörðina, tákn
móðurinnar. Hann er að sá. Og samtímis þessu hefur maður plægt akur konunnar
með plógjárni sínu, ráðalaus til bjarga þótt hjá honum sé uppskerutíð. Sagan er
byggð sem samtvinnun tákna og hliðstæðna. Hún er skrifuð á ljóðmáli, tættum
orðum með hálfkaraða merkingu eða innihald, jafnframt er það daglegt mál, efiaust
rangt, að dómi málfræðinga, en alþýðumál. Vegna þess arna er næstum engin leið að
þýða söguna eða færa hana í réttri mynd yfir á íslensku.
Brauðið, safinn, jörðin, vindurinn, vatnið, uppskeran og fæðingin. Hinir frum-
stæðu bændur. Helgiathöfnin. Vínið. Máltíðin. Og svo presturinn sem hefur lært
eitthvað í ljósmóðurfræðum, hann fer með hendurnar inn í konuna og leysir
vandamál lífsins með því að leyfa því að fæðast, svo það geti seinna dáið. Sagan gefur
glögga mynd af kaþólskunni í upprunalegri trúnni og áköllun á efni jarðarinnar sem
eru líka frumefni guðs.
Að sjálfsögðu hvílir yfir sögunni það sem er kallað biblíuandi. Við sjáum engu að
síður fyrir okkur þorpið á fjallaauðnunum í norð-austurhluta Portúgal, hinn grýtta
jarðveg, hinar grýttu sálir, hina grýttu hugsun sem okkur er svo kær, okkur sem
komum líka úr grýttu landi, þótt hraungrjótið sé annars eðlis en slípaðar ísaldar-
klappir og steinar.
Mest er þó um vert að kynna það sem gæti breytt hugmyndum fólks. Kannski er
fólk ekki kaþólskrar trúar en ætti engu að síður að kynnast mannúðarstefnu hennar,
skáldskap hennar og list og hugsun. Og sagan er gott dæmi um kaþólska portúgalska
hugsun sem hefur verið færð í listrænan búning sem er hvorki í hreinum nýraunsæis-
né biblíumyndastíl heldur mannlegur.
Ymislegt fer fram hjá andans mönnum á þotuöldinni, eins og skáldskapur Torga.
Fólk flykkist til landa Miðjarðarhafsins og ferðalög eru tíðari en þau hafa verið frá
tímum rómverja. En það er eins og ferðamaðurinn færi ekkert heim með sér, annað
en brúnan lit og leifar af sólarolíu í glösum. Sjaldan hefur menningin verið jafn
einangruð og nú þegar einangrunin hefur verið afnumin. Það versta er þó að
ferðamenn þykjast allt hafa séð og vita allt. Og engin leið að koma neinum
vitsmunum að og hugsun í sólbökuð höfuð.
Og svo er mannsandinn líka svo undursamlegur að hann kann að fela sig öldum
saman fyrir öðrum en aðeins fáum.
Til gamans má geta þess að nafn prestsins, Gusmao, og þess spænska Guzman í
næstu sögu er það sama og Guðmann. Takið eftir leyndri skírskotun til upprunans
— guðsmannsins.
545