Tímarit Máls og menningar - 01.04.1989, Page 27
Adrepur
skuli telja til Islendinga sagna eða draga ranga ályktun af því hvaða verk eru
prentuð í bókaflokkinum IF:
Þá er að athuga hvaða sögur og þættir eru í útgáfu Svh. Fyrst er að nefna, að
Landnámu, Islendingabók og Kristni sögu vantar og er töluverð eftirsjá í
þeim, einkum Landnámu, því að oft eru sömu persónur nefndar þar og í ís-
lendinga sögum. Astæðan fyrir þessu er sennilega sú að samkvæmt því sem
sagt er í forspjalli er verið að kynna Islendinga sögur sem bókmenntir og
Landnáma verður vart talin skemmtilestur öll. (405-406)
Nema hér séu á ferðinni nýjungar í fornum fræðum þótt þær séu í látlausum
búningi; engum hefur fyrr hugkvæmst að telja til einnar bókmenntategundar
þau verk sem nefna sama fólkið og geta lærðir og leikir nú skemmt sér við að
flokka saman verk á nýjan leik. Ný er einnig skilgreiningin á hugtakinu bók-
menntir: það er sá lestur sem kallast getur skemmtilegur, og mega þá margir
rithöfundar fara að vara sig. Fyrir okkur vakti ekki að gera flokkunarbyltingu í
fræðunum: það er löngu fastmótuð venja hvaða sögur eru taldar Islendinga
sögur og þeirri hefð fylgdum við í meginatriðum. Heldur flóknara er að velja
þá þætti sem prentaðir eru í samfélagi sagna og við prentum heldur fleiri en
gert hefur verið í fyrri lestrarútgáfum sagna og þátta.
Líf íslenskra fornbókmennta veltur á því að þær séu jafnan tiltækar almenn-
ingi í hentugum lestrarútgáfum sem byggja á traustum rannsóknum textafræð-
mga, sagnfræðinga og bókmenntafræðinga. Þær viðtökur sem útgáfa okkar hef-
ur fengið sýnir svo ekki verður um villst að íslenskum almenningi er annt um
bókmenntaarfinn. Og þá er bara að halda áfram því enn er margt ógert; hvar
eru t.d. lestrarútgáfur Heimskringlu eða annarra konungasagna, biskupasagna,
helgisagna, fornra fræðatexta, skemmtisagna um fornaldarhetjur og riddara,
o.s.frv.?
153