Tímarit Máls og menningar - 01.04.1989, Page 37
„Tíminn “ í listaverkinu
ins. Sá tími getur verið heillandi, ef hann er afmarkaður í ljóði, en hann er
hvimleiður sem tímaskekkja ef honum er þröngvað upp á veruleikann, dag-
legt líf og viðhorf manns og þjóðar til veruleikans. Flestir þættir í daglegu
lífi okkar eru mótaðir af þessari tímaskekkju, sem gerir það að verkum að
það fær yfir sig blæ bjagaðs og lélegs listaverks sem einhver hefur klúðrað
af því að tímaskyn hans er ekki öruggt.
Við erum aftur á móti mikið fyrir ljósa liti og bjarta, sem minna á andleg
eða ljóðræn einkennni „endalausra“ sumarnátta. Það er vegna hinnar ytri
birtu og stöðu landsins á jarðarkringlunni að bæði litaskyn og tímaskyn
okkar Islendinga er brenglað, séð frá sjónarhóli sígildra evrópskra mennta.
Osjálfrátt skipta listamenn verkum sínum í form og liti eftir því hvernig
þeir skynja tímann. Línurnar á mynd nr. 1 og 2 eru jafnar að lengd, en
hreyfingin í þeim er ólík. Þess vegna sýnist auganu að línan á mynd nr. 1 sé
bæði styttri og „órólegri“ en línan á mynd nr. 2.
Nr. 2
I grófum dráttum er myndlistin byggð á margvíslegum samleik þessara
tveggja lína og áhrifanna frá þeim. Að sjálfsögðu eru fleiri litir en hinn
svarti litur línanna hafðir með í leiknum. Og þá ber að gæta þess að augað
er lengur að fara eftir línunni á mynd nr. 1 en þeirri sem er á mynd nr. 2.
Hraðinn eða „tíminn“ fer einnig dálítið eftir því hvernig línurnar eru á lit-
inn. Hraðinn eða „tíminn“ í rauðri línu er ekki sá sami og í grænni. Það
skiptir samt engu máli hvernig þær eru á litinn, augað fer alltaf hraðar eftir
mynd nr. 2 en mynd nr. 1, hvort sem báðar línurnar kunni að vera í sama
lit eða hvor í sínum.
Þótt skáldverk og málverk séu ólík á einn hátt, þá eru þau lík á annan.
Meginmunurinn felst í því að málverk er mynd fyrir augað en skáldverkið
veitir innri sýn handan við ótal sýnir og hulur. En sömu lögmál ríkja í
skáldverki eða ritverki og öðrum listaverkum hvað innsta tímann áhrærir.
Gerð sérhvers listaverks verður að lúta í megindráttum eiginleikum áður
nefndra tveggja lína.
Við skulum hugsa okkur að mynd nr. 3 sé söguþráður í einhverju skáld-
163