Tímarit Máls og menningar - 01.04.1989, Qupperneq 118
Tímarit Máls og menningar
því svo háborin skömm að þú viljir ekki vita af því í þínum herbergjum. Og
láttu engan lesa það, síst börnin þín.
Með kærri kveðju
Málfríður
Post scriptum
Guðmundur bróðir þinn læknaði mig fljótt og vel.
í lok desember ’82 og í janúar ’83 dvaldi hún á Náttúrulækningahælinu í
Hveragerði sér til heilsubótar, þá skrifaði hún mér mörg bréf, stundum tvö
á dag, stundum sendi hún kvæði, eða kvæðabrot, sem hún var að glíma við.
Hún var orðin mjög sjóndöpur þegar þetta var og víkur oft að því.
I eftirfarandi bréfi er kvæði, sem loks kom í heild í þessu bréfi, en áður
var hún búin að senda mér nokkrum sinnum kvæðabrot, án nokkurrar út-
skýringar, svo ég var orðin ansi forvitin og rugluð, vissi ekki hvað hún var
að fara.
NLFÍ 17. 1. 83
Inga Þóra mín.
nú á vesalingur minn bágt. Samt á hann ekki bágt því hann sér stafi en ræður
minna við línur, sér dável augu í fólki, en miður aðra líkamsparta, nema
tennur, get talið þær í munni bak við varir. Sólskin er mér of bjart í augu,
dimma enn verri.
Ég hef ort tvær ljótar vísur frá 15. öld upp úr fornfrönsku, minn herra
bannaði það og sagði þær vera svo ljótar að enginn mætti neitt við þær eiga
nema Jón Helgason.
Nú skaltu sjá:
Þau veltast tvö í mjúku, breiðu rúmi,
máttlítil spikfeit, löt og kærulaus,
láta svo daginn líða fram að húmi
við látlaust blaður, hlátra, gagnslaust raus.
Þau drekka vín úr góðum, gylltum skálum,
gamalt og dýrt, en samt ei megnar það
að glæða þessum gufulegu sálum
glaðværð og traust á þessum samastað.
Hvernig líst þér á? Stúlkan heitir Gidónía, höfundurinn Villon. Það átti að
hengja hann en um það leyti sem verið var að koma snörunni fyrir á hálsin-
um kom hraðboði frá Frakkakonungi að banna að hengt væri og slapp skáld-
ið óhengdur eitthvað á burt, en sást aldrei síðan. Kvæði hans björguðust af
og hafa verið þýdd á íslensku 4 af þeim fyrir utan þessa mína ádrepu.
244