Gripla - 20.12.2008, Page 9
✝ STEFÁN KARLSSON
BÓKAGERÐ
ARA LÖGMANNS JÓNSSONAR1
RÉTT EINS OG OBBI ÍSLENSKRA FORNSAGNA er saminn af ónafngreindum
mönnum, er þorri þeirra handrita sem varðveita þessar sögur og aðrar
íslenskar miðaldabókmenntir skrifaður af mönnum sem ekki hafa látið
nafns síns getið.
Þetta breytist að vísu ofurlítið þegar kemur fram á 17. öld. Þá fer að
verða algengara að skrifarar segi til sín, annaðhvort á titilblaði bóka ellegar
við niðurlag þeirra eða einstakra efnisþátta. Þarna gætir ugglaust áhrifa frá
prentuðum bókum, þar sem venja var lengi að prentarar létu nafns síns
getið. Það hafa íslenskir prentarar tekið í venju af erlendum starfsbræðrum,
en þeir aftur að dæmum evrópskra miðaldaskrifara sem oftar nefndu sig í
kólófónum en hér tíðkaðist.
*
Hversu útbreidd lestrar- og skriftarkunnátta hefur verið hér á miðöldum
verður ekki vitað með neinni vissu, og um það hafa verið skiptar skoðanir.
Hér verður ekki farið út í þá sálma, en látið duga að fullyrða að gild rök séu
fyrir því að lestrar- og skriftarkunnátta meðal höfðingja og efnaðra bænda
hafi verið almennari hér á síðmiðöldum — og líklega þegar frá því um 1200
— en í nágrannalöndum okkar, þar sem talið er að þessi kunnátta hafi að
verulegu leyti verið bundin við andlegrar stéttar menn.2
1 Hér er um að ræða fyrirlestur sem Stefán hélt á fundi í Vísindafélagi Íslendinga 30. október
1978 og í Vísindafélagi Norðlendinga í janúar 1979. Fáeina pósta úr lestrinum notaði
Stefán aftur, svo til óbreytta, í erindi sem hann flutti á Íslenska söguþinginu 1997 („Íslensk
bókagerð á miðöldum“), en meginefnið – um bókagerð Ara Jónssonar og samverkamanns
hans – hefur hvergi birst fyrr en nú. Engar breytingar hafa verið gerðar á texta fyrirlestr-
arins, nema tilvísunum til Íslenzks fornbréfasafns (DI) er skotið inn þar sem fjallað er um
einstök bréf, og eru innskotin auðkennd með hornklofa. Athugasemdum og tilvísunum til
heimilda hefur annars verið bætt við neðanmáls. – Svanhildur Óskarsdóttir.
2 Sjá t.d. grein Stefáns „Ritun Reykjarfjarðarbókar. Excursus: Bókagerð bænda,“ Opuscula
IV, Bibliotheca Arnamagnæana 30 (København: Munksgaard, 1970), 120–140 (endurpr. í:
Stafkrókar (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 2000), 310–329).
Gripla XIX (2008): 7–29.