Gripla - 20.12.2008, Qupperneq 17
15
að þess eru mörg dæmi að handrit séu skrifuð af tveimur eða fleiri skrif-
urum, og þá er oftast verulegur munur á rithöndum þeirra, enda þótt um
samverkamenn sé að ræða, sem ætla mætti að hefðu kynnst svipuðum
ritvenjum.
Á hinn bóginn getur rithönd skrifara tekið breytingum, bæði vegna
áhrifa frá forritum og af öðrum ástæðum. Þess vegna getur stundum
verið torvelt að sjá hvort tvö lík handrit eða bréf séu með sömu hendi,
ef verulegur munur er á einhverjum atriðum. Í stórum handritum má þó
stundum sjá ritvenjur skrifara breytast smám saman í vissum greinum,
þannig að enginn vafi leikur á að um einn skrifara er að ræða.
Eitt af því sem torveldar það að finna rithendur bókaskrifara í bréfum
er að einkum á 14. öld tíðkast tvenns konar skriftarlag: settletur, einkum á
bókum, en eins konar gotnesk léttiskrift, einkum í bréfum, eða blendingur
léttiskriftar og settleturs bæði í bókum og bréfum. Án efa hafa margir
skrifarar haft vald á tvenns konar skrift, og þess eru reyndar örfá dæmi að
skrifarar beiti tvenns konar skrift í sama handritinu.27 Ef svo er ekki, getur
verið ómögulegt að þekkja settletur skrifara af léttiskrift hans eða öfugt.
Spyrja má hvort stafkrókafræði þau sem hér hefur verið drepið á
þjóni nokkrum tilgangi. Ekki verða þau í askana látin, en þau eru hluti
af menningarsögu okkar. Íslensk skriftarsaga á eflaust eftir að svara fleiri
spurningum varðandi menningartengsl okkar við aðrar þjóðir en þegar
hafa fundist svör við. Þegar haft er upp á skrifara handrits, er það ekki
aðeins ávinningur fyrir persónusögu, heldur veitir það okkur jafnframt
vísbendingu um í hvaða umhverfi bókagerð hefur verið stunduð og hvers
konar bókmenntir hafi verið hafðar þar um hönd. Þó að árangur af skrif-
araleit sé ekki mikill enn sem komið er, sýnir hann þó þegar að bókagerð á
Íslandi á miðöldum hefur ekki verið jafn-bundin við kirkjulegar stofnanir
og almennt er talið að hafi verið í Evrópu á sama tíma og sumir erlendir
fræðimenn hafa ímyndað sér að einnig hafi verið hér.28 Þó eru það að
sjálfsögðu helst kirkjunnar menn og þeir efnamestu í hópi leikmanna, sem
27 Sjá t.d. tvenns konar skrift Einars Hafliðasonar í Lögmannsannál, AM 420 b 4to, á mynd í
bók Jóns Helgasonar, Handritaspjalli (Reykjavík: Mál og menning, 1958), móts við bls. 44.
Sjá einnig 26. sýnishorn í Sýnisbók íslenskrar skriftar (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar
í íslenskum fræðum, 2007), bls. 61.
28 Sjá t.d. Lars Lönnroth, „Tesen om de två kulturerna: kritiska studier i sagaskrivningens
sociala förutsättningar,“ Scripta Islandica 15 (1964): 1–97 og andsvör Stefáns Karlssonar í
„Ritun Reykjarfjarðarbókar,“ 131–40 (319–27).
BÓ KAGERÐ ARA LÖ GMANNS JÓ NSSONAR