Gripla - 20.12.2008, Síða 18
GRIPLA16
haft verður upp á með þeim aðferðum sem hér hefur verið lýst, því að þeir
koma helst við bréf.
Í annan stað getur það verið mikilvægt fyrir bókmenntasögu og er það
alltaf fyrir málsögu að komast að aldri og uppruna bóka. Traustasta ald-
ursmark ritverka ónafngreindra höfunda er oft aldur elsta handrits sem þau
verða fundin í, og enda þótt við þykjumst þekkja megindrætti íslenskrar
málsögu er margt enn í þoku, en þó alveg sérstaklega upphafssvæði og
útbreiðsluleiðir og -hraði málnýjunga. Hver nýr skrifari sem haft er upp
á fjölgar þeim föstu punktum sem nauðsynlegir eru til rannsókna á þessu
sviði. Dagsett og staðsett fornbréf eru þar einnig að miklu gagni, enda þótt
skrifarar þeirra — og stundum einnig bóka með sömu höndum — hafi ekki
verið fundnir. Frá sjónarmiði málsögu og mállýskulandafræði er ókosturinn
við síðastnefndu heimildirnar sá, að skrifarar hafa auðvitað margir skrifað
víðar en í heimahögum sínum, þannig að borgfirskt bréf er ekki endilega
heimild um borgfirska mállýsku. Nafngreindir skrifarar hafa náttúrulega
átt sína hesta, ferðast og flutt búferlum eins og þeir nafnlausu, en um aldur
þeirra nafngreindu, uppruna og feril er fremur hægt að afla heimilda.
*
Ari Jónsson biskups er nefndur í rúmlega 80 bréfum frá árunum 1523–50,
sem prentuð eru í Íslensku fornbréfasafni IX–XII. Í a.m.k. 16 þessara bréfa
er hann nefndur á þann veg að ólíklegt er eða óhugsandi að hann hafi verið
við sjálfa bréfagerðina riðinn, en í flestum bréfanna er hann málsaðili,
vottur eða dómnefnandi. Sautján þeirra bréfa eru varðveitt í frumriti.
Af þessum 17 bréfum eru fimm sem virðast geta verið með sömu hendi.
Samkenni eru mörg mjög veruleg, einkum ef við fikrum okkur frá bréfi til
bréfs í tímaröð, en færri sem taka til bréfahópsins alls. Þetta girðir þó varla
fyrir að einn maður hafi skrifað öll bréfin fimm. Þau eru skrifuð á 16 ára
tímabili og auk þess eru þau ekki með alls kostar sambærilegu skriftarlagi;
þrjú með allstórri settletursskrift, sem er orðin mjög fátíð á dögum Ara, en
tvö með smærri skrift sem er líkari bréfahöndum síns tíma.
Þessi fimm bréf eru:
A1. Jarðakaupabréf Jóns biskups Arasonar, skrifað á Hólum í Hjaltadal
7. júní 1528, AM Fasc. LXXIII,26 [DI IX, 453–54], þar sem Ari Jónsson
er annar tveggja votta.