Gripla - 20.12.2008, Page 24
GRIPLA22
Sama hönd er að öllum líkindum einnig á prestadómsbréfi frá Hólum
1551, AM Fasc. LII,2 [DI XII, 251–53], en þá vóru þeir feðgar allir, svo að
hvorugur þeirra hefur skrifað þessi bréf.
Niðurstaða þessarar könnunar á þeim bréfum sem Ari Jónsson kemur
við er þá sú, að mestar líkur séu á að rithönd hans sé varðveitt á fimm þess-
ara bréfa og einum átta bréfum að auki; þessi síðarnefndu bréf tengjast
flest föður Ara en sum sveitungum hans, Eyfirðingum.
*
Þá er nú mál til komið að víkja að bókum Ara.
Að sjálfsögðu hefur lögmaðurinn átt lögbók, og það vill svo til að við
vitum dálítið um slíka bók. Ari var langafi Brynjólfs biskups Sveinssonar,
og Brynjólfur biskup fékk lögbók hans til eignar frá frænda sínum Magnúsi
lögmanni Björnssyni; þeir vóru systrasynir. Bókin var myndskreytt, skrifuð
1540, og Brynjólfur hafði á henni miklar mætur, lét binda hana veglega og
skrifaði á hana að hún skyldi ekki ganga úr ættliðum afkomenda hans. Í
samræmi við þessa fyrirætlun sína gaf Brynjólfur Halldóri syni sínum bók-
ina 1662, þegar hann stóð á tvítugu, en Halldór varð skammlífur, og biskup
eignaðist bókina aftur og gaf hana þá Sigríði Hákonardóttur, unnustu
Halldórs. Síðar eignaðist sonur Sigríðar, Oddur lögmaður Sigurðsson, þessa
lögbók, léði hana Árna Magnússyni, og hjá honum brann bókin 1728.31
Dálítið er til af uppskriftum úr þessari bók. Sumt af því er í AM 163
4to með hendi frá því um 1700, en meginhluti 163 er Jónsbókaruppskrift
með hendi séra Jóns Erlendssonar, og á spássíur þeirrar uppskriftar hafa
síðar verið skrifuð lesbrigði úr öðrum lögbókarhandritum, þ. á m. „Codex
Arianus“, sem án efa er þessi glataða lögbók Ara lögmanns. Úr Codex
Arianus eru einkum tilgreindar fyrirsagnir bálka og kapítula, en orðalag
fyrirsagna handrita getur verið fjarska ólíkt; þetta kemur til af því að
fyrirsagnir handrita með rauðu letri hafa oftast verið settar eftir að ritun
textans var lokið, og rubricator, hvort sem hann er sjálfur aðalskrifarinn
eða annar maður, hefur ekki alltaf haft forrit fyrir sér við ritun fyrirsagna,
heldur hefur hann sett þær eftir eigin brjósti í samræmi við efni kaflans og
með tilliti til þess hve mikið rúm hafði verið ætlað fyrir fyrirsögn í hverjum
stað — eða eftir öðru forriti sem þá hefur verið nærtækara.
31 Sbr. Árni Magnússons levned og skrifter II (København: Gyldendalske boghandel, 1930),
204–206.