Gripla - 20.12.2008, Síða 26
GRIPLA24
sem hafði keypt hana í Hollandi á uppboði eftir lærdómsmanninn Jacob
Golius (1596–1667), sem var prófessor í arabísku og stærðfræði í Leiden,
og Jón Helgason hefur getið þess til að Gísli Magnússon (Vísi Gísli,
síðar sýslumaður) hafi látið Golius hafa handritið, en Gísli var nemandi
hjá Golius á árunum 1642–46.35 Gísli var sonur Magnúsar lögmanns
Björnssonar, þess sem lét Brynjólf biskup hafa Codex Arianus, en Magnús
var dóttursonur Staðarhóls-Páls og Helgu dóttur Ara lögmanns.
Jón biskup kom til stóls 1525 og árið eftir voru gerðar eignaskrár
Hóladómkirkju og klaustra og beneficia í biskupsdæminu. Þessar skrár
eru elsti hluti skinnbókar sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni (Bps. B II,5)
og venjulega er nefnd Sigurðarregistur. Samkvæmt ummælum Jóns
Þorkelssonar við útgáfu þessa elstu hluta Sigurðarregisturs er það „allt
frá grundvelli ritað með hendi síra Sigurðar Jónssonar á Grenjaðarstað (d.
1595)“,36 en Jón Helgason komst að þeirri niðurstöðu að Sigurðarregistur
væri með sex mismunandi höndum, en auk þess væru þar meðal smá-
klausna þrjár línur með hendi séra Sigurðar. Fyrstu höndina, þ.e.a.s. á
skránum frá 1525, taldi Jón með vissu vera jafnframt á AM Fasc. XLVII,20
og líklega einnig á AM Fasc. XLVII,11, og LXXIII,26.37 Öll þessi bréf eru
skrifuð á Hólum á árunum 1528–29, og öll eru þau í hópi þeirra 6 bréfa frá
þessum tveimur árum, sem hér vóru eignuð Ara Jónssyni.
Samkvæmt formála eignaskránna hafa þær verið færðar inn í bókina
eftir að skoðunarferðum Jóns um biskupsdæmið allt lauk 1526. Þá hefur
Ari sonur hans a.m.k. verið um það bil 18 vetra, en skiptar skoðanir hafa
verið um aldur hans og annarra barna biskups. Hann kynni að hafa verið
nokkrum árum eldri, og auk þess er ekki víst að skrárnar hafi verið skrif-
aðar í bókina þegar haustið 1526.
Ætla mætti að biskupssonur hefði skrifað eitthvert guðsorð. Svo reynist
einnig vera, a.m.k. ef honum hefur verið eignuð rétt rithönd.
AM 433 c 12mo hefur að geyma Margrétar sögu, bænir og ritning-
argreinar og Maríugrát. Ritningargreinarnar eru á latínu, allar úr Lúk-
35 Njáls saga. The Arna–Magnæan manuscript 468, 4TO (Reykjabók), útg. Jón Helgason,
Manuscripta Islandica 6 (Copenhagen: Munksgaard, 1962), xvi, nmgr. 9.
36 Íslenskt fornbréfasafn, 293.
37 Jón Helgason, „Nokkur íslenzk handrit frá 16. öld,“ 153–56.