Gripla - 20.12.2008, Page 165
163
Dagur h(eiter) sonur Jardar og Dellings, hverfandi himins, stÿrandi
Skynfaxa, dötturson Nättar, bröder Auds. (Edda Magnúsar Ólafs-
sonar 1979, 264, leturbreytingar mínar)
Feitletruðu kenningarnar eru í samræmi við ættartöluna í U en ekki þá í
RWT. Anthony Faulkes bendir á þetta í sinni umfjöllun („the words ‘sonur
Jardar . . . . dötturson Nättar’ correspond to U ... rather than to the other
manuscripts“, 1979, 165) og telur þetta eitt fárra dæma í kenningahluta
Laufás-Eddu sem gæti átt rætur að rekja til texta líks þeim í U. Faulkes
gerir hins vegar enga frekari grein fyrir þessu afbrigði.
Við fyrstu sýn virðast Magnús Ólafsson og samverkamenn hans
ekki hafa veitt athygli misræminu milli kaflans um Dagskenningar, þar
sem Dagur er sonur Jarðar, og dæmisögu 8, þar sem Dagur er sonur
Nætur. Í prentaðri útgáfu P. H. Resens af Snorra-Eddu, sem byggð var
á Laufás-Eddu, má finna dæmisögu 8 þýdda á dönsku og latínu og í
báðum þýðingunum er enginn vafi að Dagur er sonur Nætur.4 Kaflinn
um Dagskenningar er hins vegar einnig til staðar og þar er Dagur kallaður
„Sonur Jardar og Dellings“ og „Döttur Sonur Nattar“ á þremur tungu-
málum. Í neðanmálsgrein við þessar kenningar vitnar bókin til dæmisögu
8 en textinn sem þar er vísað til er í greinilegri mótsögn við það sem hann
á að sýna fram á.
Hins vegar er vert að nefna að í kaflanum um Næturheiti í Laufás-Eddu
eru ættartengsl Nætur við Njörva, Naglfara, Ónar, Auð og Jörð tiltekin en
ekki er minnst á þá feðga Dag og Delling. Vera kann að hér hafi Magnús
tekið eftir misræminu í heimildum sínum og látið duga að nefna þau tengsl
sem handritin voru sammála um.
5. Kveðskapur eldri en Laufás-Edda
Magnús Ólafsson var ekki fyrstur til að setja á blað kenningar í sam-
ræmi við ættfræði Uppsala-Eddu. Verður hér litið á dæmi úr tveimur
rímnaflokkum.
Geðraunir teljast til elstu rímna og eru varðveittar í fjórum skinn-
bókum frá sextándu öld. Þar er að finna þessa bardaga lýsingu:
4 „Da tog Allfader Nat oc Dag hendis Søn“, 8. Fabel; „Nottam & filium ejus Dagum Pan to-
pater ad se recepit“, Mythologia VIII, Edda Islandorum.
„HINN FAGRI FOLDAR SON“