Gripla - 20.12.2008, Page 200
GRIPLA198
bókagerðarmaður sem hafði marga skrifara í þjónustu sinni. Eitt hið elsta
handrit sem vitað er að Magnús lét gera er Papp 4to nr. 16 sem varðveitt
er í konunglega bókasafninu í Stokkhólmi, en það var skrifað árið 1654,
þegar hann var á sautjánda ári (sbr. Jón Helgason 1955:8). Umfjöllun um
handrit sem talin eru runnin undan rifjum Magnúsar er t.d. í fyrrnefndum
inngangi Jóns Helgasonar (1955:7–14), grein Agnethe Loth í Opuscula 3
(1967), grein Jóhanns Gunnars Ólafssonar í Skírni 1956 og lítið eitt í grein
Peters Springborg í afmælisriti Jóns Helgasonar (1969).14
Hér verða þessar tvær ritgerðir gefnar út stafrétt eftir handritinu með
örlitlum frávikum í skriftartáknun. Stundum er a í framstöðu skrifað með
lykkju upp úr legg stafsins en það er ekki auðkennt hér. Ekki er gerður
greinarmunur á ‘r’ og ‘ꝛ’, ‘s’ og ‘ſ’. Leyst er upp úr böndum með skáletri.
Ekki er alltaf auðvelt að sjá mun á stórum stöfum og litlum en skrifari
dregur t.d. stafina h og j oft stórum dráttum án þess að ljóst sé hvort hann
ætli þeim stöðu stórs eða lítils stafs. Það er þó greinilegt í nöfnunum
Hierönijmus og Haralldur að um stóran staf er að ræða og því gengið út
frá því að h annars staðar sé lítill stafur. Aftur á móti setur skrifari oftast J í
framstöðu orða og fyrir forsetninguna í. Einnig er oft vafamál hvort skrifað
er ij eða ÿ í handritinu. Á örfáum stöðum setur skrifari lítinn staf í upphafi
sérnafns en hér er slíkt samræmt. Greinarmerkjasetningu handrits er fylgt
en á stöku stað er bætt við kommu innan oddklofa, einkum þegar hana
vantar í upptalningu orða. Skrifari ritgerðanna skiptir oft upp samsettum
orðum sem nútímamenn myndu hafa í einu lagi og er farið eftir því í útgáf-
unni. Þó skal það tekið fram að hann merkir ekki alltaf skiptingu milli lína.
Þegar um er að ræða orð sem skipt er milli lína er þeim haldið í tveimur
orðum þegar skrifari merkir ekki að um línuskil sé að ræða og skiptingin er
milli samsettra orða, orðs og viðskeytis eða orðs og forskeytis, enda er slíkt
gjarnan í tveimur hlutum annars staðar í textanum. Þetta er ekki gert þegar
um skiptingar eins og Jrk-issefne, Stur-luson, nu-med, mä-le er að ræða.
Blaðaskil eru merkt með lóðréttu striki í útgáfunni og blaðtal næsta blaðs
sett á spássíu. Að lokum skal þess getið að griporð eru jafnan í handritinu
en þau eru ekki skrifuð upp hér.15
14 Jóhann Gunnar Ólafsson fjallar nokkuð ítarlega um Magnús í Vigur, ætterni og æviferil, í
þessari grein.
15 Ég þakka Haraldi Bernharðssyni góðar ábendingar varðandi útgáfuna og ónefndum ritrýni
Griplu sömuleiðis.