Gripla - 20.12.2008, Page 215
213
og sálmaþýðingar Stefáns Ólafssonar og fá vikusálmar Kingos1 þar sérstaka
umfjöllun og þeir sálmar Kingos úr Siunge-Koor Anden Part sem Stefán
þýddi (Reisusálmur og Sorg og gleði).
Meistaraprófsritgerð Kristins E. Andréssonar fjallar um skáldskap
Stefáns Ólafssonar í Vallanesi. Þar má finna umfjöllun um þýðingar hans
á vikusálmum Kingos, útgáfu þeirra og hvar þá er að finna í handritum
(handritatalning hans er þó engan veginn tæmandi). Einnig getur hann um
þýðingu Stefáns á ferðasálmi Kingos, Reyse-Andagt, Reisusálmi, hvar hana
er að finna í handriti. Ritgerð Kristins er til á Árnastofnun í eiginhandarriti
höfundar og nýti ég mér upplýsingar sem þar er að finna.
Loftur Guttormsson hefur fjallað um þátt Þórðar biskups Þorlákssonar
í Skálholti í útgáfu á Morgun- og kvöldsálmum Kingos 1686, aðeins tólf
árum eftir að þeir komu fyrst út í Danmörku í Siunge-Koor Første part
árið 1674. Þórður og Kingo munu hafa verið samtíða við guðfræðinám
í Hafnarháskóla og eru heimildir fyrir því að Þórður hafi hvatt Stefán
Ólafsson til þýðingarstarfans (Loftur Guttormsson 1998, 27–43).
Þá má geta óútgefinnar greinar eftir Jón Marinó Samsonarson um
Leirulækjar-Fúsa. Þar kemur fram að Vigfús Jónsson á Leirulæk (f. 1648)
þýddi hinn þekkta sálm Thomasar Kingo ‘Dend XI. Sang Keed af Verden
og kier ad Himmelen’ í Aandelige Siunge-Koors Anden Part 1681. Far nú vel,
heimur ófagnaðarsæll.2 Jón Marinó getur þess að tvö önnur skáld hafi þýtt
sálminn á íslensku, þeir Árni Þorvarðsson, prestur og skáld á Þingvöllum,
sem var á líkum aldri og Vigfús, og svo mörgum öldum síðar Jón Helgason,
skáld og prófessor (Jón Helgason 1999,109).3 Þess má þó geta hér að Helgi
Hálfdanarson (sjá Sálmabók 1945 og 1972) og séra Kristján Jóhannsson (sjá
1 Í grein þessari eru morgun- og kvöldsálmar Kingos ýmist undir því heiti eða nefndir viku-
sálmar. Það eru morgun- og kvöldsálmar fyrir hvern dag vikunnar. Þeir komu fyrst út í
Danmörku ásamt sjö iðrunarsálmum Davíðs í Kingos Aandelige Siunge-Koor Første Part,
árið 1674. Hann var fyrri hluti af tveimur andlegum söngkórum höfundar. Thomas Kingos
Aandelige Siunge-Koors Anden Part, 37 andlegir söngvar, komu út árið 1681.
2 Þýðing Vigfúsar hefur hins vegar þá sérstöðu meðal þessara fimm þýðinga á sálminum Keed
af Verden og kier ad Himmelen að hún hefur aldrei verið prentuð í íslenskri bók. Í handriti
Lbs. 399 4to er kvæðið eignað Jacobi Worm, stjúpsyni Kingos og óvildarmanni. Það er
hins vegar réttilega eignað Kingo í Lbs. 271 4to, 362–364. Þýðing Leirulækjar-Fúsa var
loks prentuð á danska bók árið 1994 í Jacob Worms Skrifter IV. Wormiana. Samlede af Erik
Sønderholm. Udgivne af Poul Lindgård Hjort, 1994, 155–57. Heimild: Óútgefin grein eftir
Jón Marinó Samsonarson.
3 Þýðing Jóns prófessors Helgasonar: Leiður á heimi. Lystur til himins, hefst svo: „Þig veröld
ég kveð, / að vinna þér lengur skal þvert mér um geð.“
PASSÍUSÁLMAR KINGOS