Gripla - 20.12.2008, Page 217
215
Íslensku þýðinguna á sálmunum er aðeins að finna í einu handriti á
Landsbókasafni, Lbs. 2534 8vo. Handritið er merkt upphafsstöfunum
JW og Páll Eggert Ólason getur sér þess til að það sé frá því um 1720 (sjá
Handritaskrá Landsbókasafns, 1. aukabindi 1947).
Þýðinguna má því líklega tímasetja á árunum milli 1703, dánarárs
Kingos, og 1720 þar eð sálmarnir eru eignaðir sáluga biskup Th. Kingo í
handriti.
Á Passíusálmum Kingos er kröftugt málfar, þeir eru beinskeyttir og oft
í predikunartón. Það fer ekki hjá því við lesturinn að maður finni til skyld-
leika með þeim biskupum Kingo og Jóni Þorkelssyni Vídalín. Þýðingin er
eins og frumtextinn á kröftugu máli, vel gerð að því er virðist og nokkuð
nákvæm. Bragarhætti er haldið í þýðingu en hann er sá sami í öllum sálm-
unum frá upphafi til enda. Hvert vers er 8 vísuorð, atkvæði 87877788, með
fjórum bragliðum í vísuorði, hnígandi tvíliðum en þó stýfður liður í lok sjö
atkvæða línanna. Rím er AbAbccDD.6 Með það fer þýðandi stöku sinnum
frjálslega.
Þýðandi bætir víða við forlið í upphafi vísuorðs. Hann bætir einnig oft
einu áherslulausu atkvæði eða fleiri við hnígandi tvíliði (hlutleysing) eins
og títt er í íslenskum kveðskap og tíðkaðist í fyrri tíma kveðskap Dana,
þjóðkvæðunum, en sem barokkskáldið Kingo gerir aldrei.
Berum saman tvö fyrstu vers í frumtexta og þýðingu (hér er íslenska
þýðingin birt með nútímastafsetningu til hægðarauka):
Þýðandi fylgir frumtexta nokkuð nákvæmlega efnislega. Þó er boð-
háttur hans ekki eins skipandi í upphafi 1. erindis og í frumtexta og boð-
háttur í 2. erindi, 3. og 4. vísuorði verður staðhæfing með úrdrætti í þýð-
ingu. Hrynjandi breytist á stöku stað, svo sem þar sem stýfðir liðir eru í
lok 2. og 4. vo. í frumtexta. Í báðum versum hér að ofan eru þar þríliðir
− ∪∪ samkvæmt íslenskum framburði í stað − ∪ − (hnígandi tvíliður og
stýfður liður) samkvæmt bragarhætti. Þýðandi rímar á 3. atkvæði orðs sem
er áherslulaust í íslensku. Reyndar rímar hann aðeins með bókstafnum a í
báðum tilvikum. Í 1. versi: englanna/ heimsbyggða og í 2. versi: englanna/
herskara. En frjálsræði af þessu tagi er algengt hjá íslenskum skáldum þessa
tíma eins og sjá má í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar sem nýtir sér
frelsið á snilldarlegan hátt (Sigrún Steingrímsdóttir 2006, 106–119).
6 Hér merkir upphafsstafur kvenrím, lítill stafur karlrím.
PASSÍUSÁLMAR KINGOS