Gripla - 20.12.2008, Síða 220
GRIPLA218
Texti handritsins birtist hér sem viðauki, í stafréttri uppskrift. Þó hef
ég upphafsstafi aðeins í byrjun málsgreina og í sérnöfnum.
3. Aðrir íslenskir þýðendur Kingos
Verður nú nafngreindra þýðenda Kingos getið, þýðinga þeirra og hvar þær
er að finna.
STEFÁN ÓLAFSSON (1618–1688), PRÓFASTUR Í VALLANESI, þýddi viku-
sálma Kingos og sjö iðrunarsálma Davíðs. Þeir komu út í Danmörku í
Siunge-Koor Første Part árið 1674. Sálmarnir í þýðingu Stefáns voru fyrst
prentaðir árið 1686 í Skálholti aftan við Paradísarlykil eftir Martin Moller
og hafði Stefán þýtt þá eftir tilmælum Þórðar biskups Þorlákssonar. Því
næst voru sálmarnir prentaðir í Sálmabók, Hólum 1751 (698–755). Í þriðja
sinn voru þeir prentaðir í Höfuðgreinabók, Hólum árið 1772 (gerð er
grein fyrir sálmunum í Stefán Ólafsson 1886 (II), 314–326). Einstök vers
úr sálmunum eru svo í Sálmabók 1801 en mörgum þeirra breytti Magnús
Stephensen verulega.
Nokkrir sálmanna eru líka í Sálmabókum 1871, 1886 og 1945. Sjá t.d.
morgunsálminn Enn hraðar sólin sér (Nu rinder Solen op, sextán vers), nr.
462 í Sálmabók 1871. Séra Stefán stytti sálminn í sex vers. Hann tók 1.–2.
vers, 4., 6. og 8.–9. vers og breytti þeim verulega. Í Sálmabók 1886 er þýð-
ingin númer 511. Þar eru þrjú fyrri versin frá 1871, hinum sleppt en tekin
upp tvö ný úr þessum sama sálmi. Í Sálmabók 1945, nr. 525, er sálmurinn
óbreyttur frá 1886. Í Sálmabók 1972 og 1997 er hann númer 446, fjögur
vers með breytingum Stefáns Thorarensen.
Sálmana er einnig að finna í eftirfarandi handritum:
Lbs. 886 4to, Lbs. 1886 8vo, JS 218 8vo, JS 443 8vo, ÍB 188 8vo, ÍBR 80
8vo, ÍBR 87 4to, ÍBR 158 8vo, Lbs. 1895 8vo (skr. um 1770), ÍB 444 8vo, ÍB
669 8vo, Lbs. 3926 8vo, Lbs. 4391 8vo, Lbs. 2373 8vo (Páll Eggert Ólason
1924, Handritasafn Landsbókasafns).
Stefán Ólafsson þýddi tvo aðra sálma eftir Kingo úr Siunge-Koor Anden
part sem hvorki voru prentaðir sérstaklega með fyrrnefndum þýðingum
né í sálmabókum. Annar þeirra er Reisusálmur sem hefst svo í þýðingu:
Í Jesú sætu nafni eg. Hann er alls átján erindi. Í frumtexta Kingos hefst
hann svo: I Jesu himmel-søde Navn, og er XIX. söngur í Söngkórnum.