Gripla - 20.12.2008, Page 227
225
vísar til eins af morgunsálmum Kingos í þýðingu Stefáns Ólafssonar. Það
sálmalag syngjum við nú m.a. við páskasálminn Sigurhátíð sæl og blíð. Annar
þekktur lagboði er Hjartað þankar, hugur, sinni sem einnig vísar til morg-
unsálms eftir Kingo í þýðingu Stefáns. Báðir þessir morgunsálmar Kingos
eru þó löngu horfnir úr íslensku sálmabókinni en lagboðarnir minna okkur
á þessar gömlu þýðingar.
5. Samantekt
Tekið var til við að þýða Söngkóra Kingos á íslensku, fyrri og síðari part,
skömmu eftir að þeir komu út í Danmörku, að tilhlutan Þórðar Þor-
lákssonar Skálholtsbiskups. Hér hafa þeir þjónað heimilisguðrækni, eins og
í Danmörku, þegar þeir komu fyrst í sérstökum útgáfum. Þýðing Stefáns
var prentuð með Paradísarlykli Martins Moller: Sjö morgunsálmar, sjö
kvöldsálmar og sjö iðrunarsálmar Davíðs, alls 21 sálmur. Þýðing Árna var
gefin út í sérstakri bók, Andlega söngkórs annar partur, 37 sálmar alls.
Þá kom þýðing Stefáns eins og hún lagði sig í Sálmabók 1751 og Höf-
uð greinabók 1772. Þær sálmabækur hafa þjónað hvoru tveggja, kirkju og
heimilisguðrækni.
Skömmu eftir lát Kingos hafa Passíusálmar hans verið þýddir á íslensku.
Ekki var þeirri þýðingu þó lokið og ekki komu þeir út á prenti. Það er
ljóst að þörf fyrir þá var ekki brýn þar eð Íslendingar áttu Passíusálma
Hallgríms Péturssonar. Þar var engu við að bæta. Þó hefur einhver séð
ástæðu til að þýða sálma Kingos. JW er fangamark þýðanda. Ég hef leitt að
því líkur að þýðandi sé Jón biskup Vídalín, eftirmaður Þórðar Þorlákssonar
í Skálholti og höfundur Vídalínspostillu. Böðvar Guðmundsson segir um
Vídalínspostillu: „Vídalínspostilla er rituð á þróttmiklu máli, sem er fullt
af myndskrauti og öðrum bókmenntalegum einkennum barokktímans, og
andríki hennar er ótæmandi“ (Böðvar Guðmundsson 1993, 516). Það sama
má segja um passíusálma Kingos. Þann einlæga, barnslega anda sem ríkir í
Passíusálmum Hallgríms er ekki að finna í píslarsálmum Kingos fremur en
í postillu Jóns Vídalíns. Hins vegar er sterkur, kraftmikill predikunartónn
sameiginlegt einkenni Vídalíns og Kingos. Passíuálmar Kingos hafa ekki
þjónað heimilisguðrækni á sama hátt og sálmar Hallgríms enda voru þeir
ortir fyrir hina opinberu sálmabók kirkjunnar. Hin íslenska þýðing á pass-
íusálmum Kingos hefur legið afskiptalaus og óútgefin í handriti í 300 ár.
PASSÍUSÁLMAR KINGOS