Gripla - 20.12.2008, Page 235
233
SIGRÍÐUR MAGNÚSDÓTTIR
„EN HVERNIG SEM ALLT FER
VERÐ ÉG Í HÖFN Í SUMAR ...“
Um fyrirhugaða ferð Stefáns Ólafssonar skálds til Frakklands
TILEFNI ÞESSARA HUGLEIÐINGA er sú fullyrðing Jóns Þorkelssonar að
Brynjólfur biskup Sveinsson hafi ráðið Stefáni Ólafssyni frá því að þiggja
boð um að gerast fornfræðingur við bókasafn Mazarins kardínála í París
árið 1647.1 Hugur Stefáns stóð til þess að taka þetta starf að sér en hann
vildi þó fyrst leita álits foreldra sinna og Brynjólfs biskups. Fullyrðir Jón
að af heimildum sé „auðséð, að biskup hefur ráðið Stefáni frá Frakklands-
ferðinni“.2 Flestir fræðimenn hafa tekið þessa ályktun Jóns sem staðreynd,
jafnvel þótt þeir hafi átt bágt með að trúa skýringartilgátu hans á ástæðum
þess að biskup á að hafa ráðið Stefáni frá Frakklandsferðinni: biskup hafi
séð ofsjónum yfir velgengni Stefáns. Ef farið er í heimildina sjálfa, bréf
Stefáns til Brynjólfs biskups, verður hins vegar ekki betur séð en að álykt-
unin sé hæpin.3 Frekar mætti ætla að Brynjólfur biskup hafi talið foreldra
Stefáns á að leyfa honum að fara til Frakklands. Hér á eftir verður reynt að
gera nokkru nánari grein fyrir þessu máli.
I
Í ævisögu Stefáns Ólafssonar í útgáfu kvæða hans (1885–1886) segir Jón
Þorkelsson frá því að áformað hafi verið að Stefán færi til Frakklands og
gerðist norrænn fornfræðingur við bókasafn Mazarins kardínála. Jón vitnar
í bréf Stefáns til Eiríks Ketilssonar í Vallanesi 6. maí 1646 þar sem Stefán
segir að hann muni ekki sjá ættjörð sína á sumri komanda því að honum
bjóðist að fara til Frakklands sér og sínum að kostnaðarlausu.4 Í bréfi til
1 Jón Þorkelsson, „Stefán Ólafsson,“ Stefán Ólafsson. Kvæði II (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka
bókmenntafélag, 1886), XX–LXXXII.
2 Sama rit, XLIX.
3 Bréfabók Stefáns Ólafssonar er varðveitt í Bodleian-safninu í Oxford (Bodleian 67 4to), en
uppskrift af henni, sem Eiríkur Magnússon gerði 1885, er varðveitt í handritadeild Lands-
bókasafns, Lbs. 282 fol., og hefur hér verið stuðst við hana.
4 Jón Þorkelsson, „Stefán Ólafsson,“ XLVI.
Gripla XIX (2008): 233–245.