Gripla - 20.12.2008, Page 250
GRIPLA248
Guðmundar og reyna í krafti nýrra upplýsinga að komast að nákvæmari
ársetningum og víðtækari vitneskju um þau. Grafist verður fyrir um ætt
hans og uppruna, námsdvölina að Hólum, veikindin, djáknastöðuna við
Reynistaðarklaustur og loks samskipti hans við Björn Jónsson annálarit-
ara á Skarðsá. En byrjað verður á því að renna augum yfir helstu æviágrip
Guðmundar Andréssonar.
2. Fyrri æviágrip
Menn hafa haft áhuga á óvenjulegri ævi Guðmundar síðan hann féll frá
í drepsótt sem geisaði í Kaupmannahöfn sumarið 1654. Fyrstur til að
taka saman æviágrip hans var Peder Hansen Resen (1625–1688) sem var
háskólaprófessor og mikilvirkur bókasafnari með meiru. Það birtist fyrst
framan við skýringar Guðmundar yfir Völuspá árið 1673 og svo aftur lítið
breytt tíu árum síðar framan við orðabók hans, en Resen gaf bæði ritin út.
Resen kom heim úr sex ára námsferð árið 1653 og hefur þá væntanlega farið
í biðröð eftir embætti við háskólann sem honum hlotnaðist svo 1657. Hvar
hann dvaldist og við hvað hann fékkst á þessum árum liggur ekki fyrir.
Ekki er hægt að útiloka að Resen hafi haft einhver kynni af Guðmundi
sem sótti fyrirlestra við háskólann, bjó á Regensi, mataðist á Klaustri og
vann að verkefnum fyrir Ole Worm, háskólaprófessor og rúnafræðing, er
tími gafst til frá náminu. Hugsanleg kynni þeirra ráðast þó af Íslandsáhuga
Resens sem virðist ekki hafa kviknað fyrr en skömmu fyrir 1665, en þá gaf
hann út fyrsta rit sitt er varðar Ísland og á sama ári keypti hann handrit að
orðabók Guðmundar á uppboði. Hann hefur því tæpast haft nokkur kynni
af Guðmundi enda segist hann hafa nýtt sér sagnir Íslendinga við samningu
æviágripsins sem voru þá þegar orðnar hálfgerðar tröllasögur.2
Næstur til að rita æviágrip Guðmundar var Páll Vídalín (1667–1727),
þá varalögmaður, í skálda- og rithöfundatali sínu sem hann setti að mestu
saman um 1700. Þar koma fram sömu upplýsingar og hjá Resen nema hvað
skáldskapinn varðar en þar er öll umræða á neikvæðari nótum.3
2 Dansk biografisk leksikon 12, bls. 146–147; P.H. Resen, Íslandslýsing, bls. 11–12; Guðmundur
Andrésson, Deilurit, bls. xix og xxi. Ekki kemur fram hver átti bókasafnið sem boðið var
upp 1665 og engar heimildir virðast vera til um bókauppboð það ár, sbr. Harald Ilsøe,
Biblioteker til salg, bls. 54.
3 Páll Vídalín, Recensus, bls. 40–44; Gottskálk Jensson, „Hversu mikið er nonnulla?“, bls.
113, 124 og 126–127.