Gripla - 20.12.2008, Síða 253
251
var það í sjöttu deild árbóka hans sem komu út árið 1827. Þar kemur þó
ekkert nýtt fram og hefur heimild hans án efa verið biskupasögur séra Jóns
Halldórssonar án viðbóta séra Vigfúsar.9 Fyrstur til að nýta til fullnustu öll
þau bréf og skjöl er snerta Guðmund og urðu til á síðustu fimm árum ævi
hans var Finnur Jónsson (1858–1934), síðar prófessor, í grein sem birtist
árið 1895.10
Í Æfum lærðra manna safnaði Hannes Þorsteinsson (1860–1935) þjóð-
skjalavörður saman fróðleik m.a. um Guðmund Andrésson. Þar getur hann
skjala sem Guðmundur hefur komið að með einum eða öðrum hætti og
voru ekki áður kunn. Þessi sarpur Hannesar hefur ekki verið prentaður,
sjálfsagt vegna umfangs og hrárrar framsetningar á köflum. Hann er, þrátt
fyrir óárennilega skrift og oft á tíðum úreltar skjalamerkingar, hin mesta
fróðleiksnáma.11
Alla þessa þræði tók Jakob Benediktsson saman er hann skrifaði ævi-
ágrip Guðmundar Andréssonar. Það birtist framan við útgáfu hans á Deilu-
riti árið 1948 en útgáfunni fylgdi einnig ritgerðin Þekktu sjálfan þig auk
kveðskapar Guðmundar. Ári síðar gaf Jakob svo út rímur hans. Loks
gáfu þeir Jakob og Gunnlaugur Ingólfsson út orðabók Guðmundar árið
1999.12
Eins og sjá má hefur áhugi á Guðmundi Andréssyni verið stöðugur
fram til dagsins í dag. Hann hefur meira að segja verið gerður að sögu-
hetju í sögulegri skáldsögu frá árinu 1996 eftir Þórarin Eldjárn sem ber
heitið Brotahöfuð og hefur notið talsverðra vinsælda og verið þýdd á erlend
tungumál.13
9 Jón Espólín, Íslands árbækur í sögu-formi VI, bls. 130–133.
10 Finnur Jónsson, „Guðmundur Andrjesson, fornfræðingur.“, bls. 3–22. Áhuga Finns á
viðfangsefninu má e.t.v. rekja til orðabókar Guðmundar sem kom út í Kaupmannahöfn
1683 en Finnur fékk hana að gjöf frá föður sínum Jóni Borgfirðingi sem var mikill bóka- og
handritasafnari, sbr. Ævisaga Finns Jónssonar eftir sjálfan hann, bls. 31. Einnig er líklegt að
Finnur sé höfundur kvæðisins „Guðmundur Andrjesson frá Bjargi í Miðfirði. Dáinn 1654.“,
sem birtist í Stefni I:11 (7. júní 1893), bls. 41–42, en undir því stendur aðeins F.
11 ÞÍ. Skjalasafn Þjóðskjalasafns Íslands. KA/21 Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 21
(Guðmundur Andrésson).
12 Guðmundur Andrésson, Deilurit; Persíus rímur eftir Guðmund Andrésson og Bellerofontis
rímur; Lexicon Islandicum. Orðabók Guðmundar Andréssonar. Sjá einnig, Gunnlaugur
Ingólfsson, „Um orðabók Guðmundar Andréssonar.“, bls. 45–47.
13 Þórarinn Eldjárn, Brotahöfuð.
HÖFUÐDRÆTTIR ÚR BROTAKENNDRI ÆVI