Gripla - 20.12.2008, Page 254
GRIPLA252
3. Ætt og uppruni
Hannes Þorsteinsson kom auga á þá Guðmund Andrésson og Andrés
Guðmundsson, votta að landamerkjavitnisburði milli Ytra- og Syðra-Vatns
í Lýtingsstaðahrepp í Skagafirði frá 10. júní 1644, í apógrafasafni Árna
Magnússonar handritasafnara. Hann taldi líklegt að þar væru komnir þeir
Guðmundur orðabókarhöfundur og Andrés faðir hans. Jakobi Benediktssyni
þótti þetta hins vegar ónógur vitnisburður til að slá því föstu.14 Varkárni
Jakobs stafaði líkast til af því að á þessum tíma átti Guðmundur að vera nið-
urkominn í Húnavatnssýslu en ekki Skagafjarðarsýslu. Sé umrætt skjal hins
vegar skoðað nánar kemur í ljós að þeir feðgar votta, ásamt tveimur öðrum,
að Sigurður Sveinsson meðkenni að vitnisburður hans um landamerki Ytra-
og Syðra-Vatns frá árinu 1611 sé réttur. Vitnisburður Sigurðar og annars
manns voru teknir í Skagafjarðarsýslu en meðkenning Sigurðar var vottuð
þann 10. júní 1644 að Bólstaðarhlíð í Húnavatnssýslu.15 Engu að síður hefur
Jakob haft efasemdir og getur þess ekki einu sinni að vottun þeirra feðga
hafi farið fram í Húnavatnssýslu. Fleira bendir til þess að Hannes hafi haft
rétt fyrir sér og verður hér rennt frekari stoðum undir tilgátu hans.
Þann 13. október 1654, þá áttræður og blindur, lét Björn Jónsson á
Skarðsá skrá niður eftir sér greinargerð vegna tíundar af leigujörð sinni.
Ástæðan var sú að komið hafði til tals síðast er hann var á hreppaskilum
á Reynistað hvort ekki væri meiri þurfamannatíund eftir jörðina Skarðsá
en hann hafði greint frá. Síðar hafði honum borist til eyrna að aftur hafi
verið spurt um þetta á hreppsfundum en þar hafði hann ekki getað verið
viðstaddur vegna „… áfallins langvarandi veikleika …“. Í greinargerðinni
kemur fram að þeir sem höfðu búið þar fyrir er hann flutti í Sæmundarhlíð
og hóf búskap á Skarðsá höfðu sagt honum til um hvernig ætti að gjalda
og eftir því hefði hann farið síðan. Þessu til vitnis nefnir hann til „… þann
velkennda mann Andrés Guðmundsson sem enn nú er á dögum og hér var
uppalinn í þessari sveit.“16
14 Guðmundur Andrésson, Deilurit, bls. vi. Jarðakaup á milli séra Gísla Brynjólfssonar og
Þorbjargar Pétursdóttur fór fram á Bólstaðarhlíð í Langadal 25. apríl 1644 en þá seldi hún
honum hálft Syðra-Vatn sem var tíu hundruð að dýrleika. Hvorki Guðmundur né faðir hans
voru vottar að kaupgjörningnum, sbr. ÞÍ. Bps. B. I, hylki III, nr. 25.
15 AM Dipl. Isl. V, 15. Apogr. nr. 5273. Þetta kemur fram hjá Hannesi Þorsteinssyni sem
Jakob vitnar til.
16 AM 216cβ 4to, bl. 21r. Steinsótt hrjáði Björn og varð hans banamein 28. júní 1655, sbr. Páll
Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár I, bls. 224.