Gripla - 20.12.2008, Side 255
253
Andrési bregður fyrir ásamt Birni á Skarðsá og tveimur öðrum mönnum
í vitnisburðarbréfi sem þeir settu innsigli sín fyrir að Reynistað 5. október
1630. Í bréfinu kemur fram að þeir hafi verið viðstaddir að Syðri-Ökrum
í Blönduhlíð 30. september sama ár. Þar hafi þeir verið vitni að því er Jón
Arngrímsson samþykkti sáttargerð á milli Arngríms Jónssonar lærða, föður
hans, og Jóns Sigurðssonar sýslumanns og klausturhaldara sem gerð hafði
verið 10. maí 1630 að Stóru-Ökrum í Blönduhlíð.17
Af ofansögðu má ráða að Andrés bjó í næsta nágrenni við Björn á
Skarðsá. Orðalagið í greinargerðinni bendir hins vegar til þess að sú sé
ekki raunin er hún var samin þann 13. október 1654. Andrés hefur því
væntanlega flutt sig um set því Björn segir hann enn á lífi. Hvar Andrés
bjó, er þeir Björn voru sveitungar, má ráða af því hvar Guðmundur, sonur
hans, dvaldist í veikindum sínum sem verða gerð nánari skil hér á eftir.
Að eigin sögn mun Guðmundur hafa veikst er hann dvaldist heima í
foreldrahúsum. Í bréfi Björns á Skarðsá til Guðmundar Hákonarsonar,
sýslumanns að Þingeyrum, kemur fram að það hafi verið í Sólheimum í
Sæmundarhlíð sem var steinsnar frá Skarðsá og að ónafngreind systir hans
hafi hjúkrað honum.18 Guðmundur er því að líkindum fæddur og uppalinn
í Staðarhreppi í Skagafjarðarsýslu eins og faðir hans og e.t.v. að Sólheimum.
Það sem bendir til þess eru orð hans í höfuðlausnarbréfi sínu til Ole Worm,
skrifuðu á bak við lás og slá í Bláturni 7. október 1649. Þar segist hann
nefnilega hafa umgengist Björn á Skarðsá mikið á sínum æskuárum því að
hann hafi verið næsti nágranni sinn.19
Sé eigendasaga Sólheima gaumgæfð má sjá að eftir miðja 16. öld eign-
aðist séra Gottskálk Jónsson í Glaumbæ jörðina. Eftir hann hefur sonur
hans séra Jón líkast til fengið hana því sonur hans, Tumi Jónsson, seldi
Jóni lögmanni Sigurðssyni Sólheima þann 21. júlí 1610. Á Reynistað 14.
nóvember 1626 gaf Jón Sigurðsson Kristínu dóttur sinni m.a. Sólheima
til erfðaskipta móts við bræður sína. Þann 11. október 1631 var gerður
kaupmáli með Þorláki Pálssyni og Kristínu Jónsdóttur og voru Sólheimar
meðal þeirra jarða sem Jón Sigurðsson fékk dóttur sinni. Í jarðabók Árna
Magnússonar og Páls Vídalíns, sem tekin var yfir Staðarhrepp 22.–24. maí
1713, er jarðardýrleiki Sólheima sagður 60 hundruð en 50 hundruð þegar
17 Lbs 787 4to, bls. 219. Um sáttargerðina, sjá Annálar 1400–1800 I, bls. 227, 230 og 233; Bogi
Benediktsson, Sýslumannaæfir I, bls. 556.
18 Guðmundur Andrésson, Deilurit, bls. 151; AM 216d 4to, bl. 10r.
19 Breve fra og til Ole Worm III, bls. 393.
HÖFUÐDRÆTTIR ÚR BROTAKENNDRI ÆVI