Gripla - 20.12.2008, Page 266
GRIPLA264
Þorlákur biskup hafi notað veikindin sem átyllu til að neita sér um embætti
standast því tæpast. En með þeim á Guðmundur þó líkast til við prests-
embætti því djáknastaðan var ólaunuð og henni gegndu óvígð prestsefni.
Orð Guðmundar eiga því væntanlega við tímann eftir að honum var vikið
úr djáknastöðunni. Líklegra er að biskup hafi notað veikindin sem átyllu
til að neita honum um embætti eftir að kastaðist í kekki milli þeirra. Í bréfi
til Sjálandsbiskups taldi Þorlákur Guðmund æstan upp af djöflinum til að
ráðast gegn Stóradómi. Þar vísar hann væntanlega til veikinda Guðmundar
en á þessum tíma töldu menn að andlegir sjúkdómar væru runnir undan
rifjum djöfulsins.49
Þrátt fyrir að Árni lögmaður hafi ekki búið á Reynistað þá virðist
sem Guðmundur hafi komist í kynni við hann. Það var Árni sem varaði
Guðmund við því að til stæði að kæra hann fyrir höfuðsmanni vegna skrifa
hans um Stóradóm. Guðmundur skrifaði svo séra Þórði Jónssyni í Hítardal
og bað hann um að verja sig ef til þess kæmi. Ástæða bónarinnar kann að
vera sú að séra Þórður hafi skrifað um forboðna liði en Már Jónsson eignar
honum tvær lögfræðiritgerðir um efnið. Í handriti er höfundar hins vegar
ekki getið, aðeins tilfært fangamark sem séra Þórður deilir með höfundi
séu þeir ekki einn og sami maðurinn. Árni lögmaður kann hins vegar að
hafa vísað Guðmundi á séra Þórð en hann var tengdasonur hans og naut
mikils álits sem lærdómsmaður. Einnig er forvitnilegt í þessu sambandi að
benda á að Árni lögmaður og Þorlákur biskup virðast hafa deilt harkalega
á alþingi sumarið 1649, en þá var mál Guðmundar einmitt tekið fyrir, eins
og sjá má af bréfi Þorláks til Árna frá 21. apríl 1650.50
Lítið sem ekkert er vitað um djáknatíð Guðmundar en samkvæmt
kirkjuordinansíunni bar honum að kenna ungu bændafólki barnalærdóm-
inn einu sinni í viku. Við kennsluna var notuð kennslubókin Fræðin minni
eftir Martein Lúther og var ætlast til að menn kynnu fræðin utanbókar
en þau samanstóðu af boðorðunum tíu, trúarjátningunni, Faðir vorinu,
skírnarformála og innsetningarorðum altarissakramentisins, auk nokkurra
bæna. Ennfremur var hann nokkurs konar meðhjálpari sem átti að aðstoða
prestinn við embættisgerðina og í hans hlut féll að leiða safnaðarsönginn.
49 Guðmundur Andrésson, Deilurit, bls. 151 og 154; Ólafur Davíðsson, Galdur og galdramál á
Íslandi, bls. 27.
50 Breve fra og til Ole Worm III, bls. 400; Már Jónsson, Blóðskömm á Íslandi 1270–1870, bls.
137–138 og 151–153; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár V, bls. 102; Bréfabók Þorláks
biskups Skúlasonar, bls. 271.