Gripla - 20.12.2008, Page 270
GRIPLA268
var u.þ.b. 23 ára. Nú er ljóst að forsendurnar fyrir ágiskun Jakobs standast
ekki og þar sem að heimildirnar veita engar haldbærar upplýsingar til að
ákvarða aldur Guðmundar er vandasamt að hætta sér út á þá braut.
Eitt hálmstrá mætti þó hugsanlega grípa til sem er tilskipun Kristjáns IV
frá 16. febrúar 1621 um að prestsefni verði að fylla 25 ár áður en að þeim séu
veitt prestaköll.58 Eftir útgáfu hennar gátu prestlingar ekki vænst brauðs að
lokinni útskrift fyrr enn þeir höfðu náð tilskildum aldri og þroska sem var
einmitt markmiðið. Þangað til hafa synir efnamanna og afburðanemendur
með fjársterka bakhjarla haldið til háskólanáms í Kaupmannahöfn. Aðrir
hafa orðið að láta sér lynda að verða djáknar, biskupssveinar, skrifarar valds-
manna og barnakennarar hjá fyrirfólki svo eitthvað sé nefnt.
Ef þessi tilskipun er notuð til að skorða aldur Guðmundar mætti ætla
að þegar hann fær stöðu djákna við Reynistaðarklaustur líkast til seinni
hluta árs 1638, þá sé hann ekki búinn að ná 25 ára aldri. Það bendir til
þess að hann sé fæddur eftir 1613. Guðmundur getur þess einnig í höf-
uðlausnarbréfi sínu að af og til hafi verið óskað eftir sér til prestsembættis
í kjölfar brottvikningarinnar úr djáknastöðunni á Reynistað skömmu eftir
22. júní 1640. Líklegt verður að teljast að þessar óskir hafi komið fram
áður en Guðmundur varð uppvís að frillulífisbroti sínu á reikningsárinu
1644–1645. Í kjölfarið samdi hann Deilurit sem tók fyrir alla möguleika
á að biskup veitti honum prestsembætti.59 Guðmundur hefur því vænt-
anlega verið búinn að ná 25 ára aldri á þessu árabili og er því fæddur á
árunum 1615–1619/1620. Það ætti því að vera óhætt að ætla að Guðmundur
sé fæddur á árabilinu 1614–1620. Þar sem búið var að skorða námsdvöl
Guðmundar á Hólum til fjögurra ára á bilinu 1628–1635 þá hefur hann
þurft að hefja nám sitt ekki síðar en 1631 því hann var fjögur ár við skólann.
Líklegast er hann því fæddur á fyrri hluta þessa tímabils, þ.e. á árunum
1614–1616 því að annars hefur hann þurft að hefja skólagöngu mjög ungur.
Niðurstaða af þessum vangaveltum er því nokkuð nálægt því sem Jakob
Benediktsson hafði hugsað sér.
58 Lovsamling for Island I, bls. 201–202. Þar kemur fram að tilskipunin hafi ekki verið
gefin út fyrir Ísland en engu að síður hafi verið farið eftir henni. Magnús Ketilsson segir
sömuleiðis að tilskipunin hafi ekki verið gefin út fyrir Ísland en að hún hafi verið sett fyrir
alla undirsáta konungs og verið almenn lög sem hafi einnig verið tekin upp hér. Hann getur
þess að hana sé jafnframt að finna í tilskipanaskrá Finns Jónssonar biskups í kirkjusögu
hans, sbr. Kongelige allernaadigste forordninger og aabne breve II, bls. 318–319. Sjá einnig hvað
þetta ákvæði varðar Lovsamling for Island II, bls. 648 og 661.
59 Breve fra og til Ole Worm III, bls. 395; Guðmundur Andrésson, Deilurit, bls. x.