Gripla - 20.12.2008, Page 289
287
Sturluson endar sinn Prologus í Heimskringlu á þeim viðmiðum sem hann
hefur haft til að meta hvort kvæði séu óbrjáluð eður ei, þ.e. ef kvæðin
eru „rétt kveðin“. Hvort bragfræðilega réttasti leshátturinn sé alltaf sá
„besti“ með tilliti til fagurfræði eða merkingarsköpunar er ekki sjálfgefið í
öllum tilvikum. Í því sambandi mætti nefna það eðli munnlegrar geymdar
að „betrumbæta“ efni sitt, bæði er varðar form og innihald og því varla
sjálfgefið að „réttast“ eða „skýrast“ sé upprunalegast, líkt og speglast í lectio
difficilior hugtakinu. Þetta vandamál gildir þó fyrst og fremst um eldri
kvæði en þau í 7. bindi, ekki síst vegna þess að þar var bragfræði drótt-
kvæðs háttar í nokkurri þróun, og eftir því sem ég best veit er þekking
fræðimanna á þeim breytingum, líkt og málfarsbreytingum almennt, fjarri
því að vera alger.
Þetta nefni ég hér til að sýna hve mikill vandi er á höndum þeirra sem
að útgáfu dróttkvæða standa. Hins ber að geta að í SkP er normalíserað
með nánara samræmi við málstig tímabilsins sem kvæðið tilheyrir, meðan
áður var ein og sama réttritunin nýtt fyrir allt textasafnið frá 9. til 14. aldar,
og er í þessu fólgin nákvæmnisframför, einkum með tilliti til fræðimanna
innan málsögu og málvísinda.
Önnur viðmið að baki vali leshátta sem við finnum í normalíseraða
textanum eru merkingarleg eða fagurfræðileg. Skoðum Geisla í þessu
sam hengi. Sem dæmi um merkingarleg rök velur Martin Chase Flat-
eyjarbókarlesháttinn (Flat) um Guð sem ‘ráðanda’ framyfir Bergsbókar
(Bb) ‘valdanda’ og AM 748 I b 4˚ (A) ‘kjósanda’, sem tengist forlagahyggju
heiðins siðar, og því illa til fundið í kristnu kvæði. Sem rökstuðning fyrir
þessu vísar Chase í 20. vísu Vǫluspár (þær líf kuru), og að auki í 10. vísu (?),
en hvaða útgáfu eddukvæða vísað er í tókst mér ekki að finna í bindinu,
og er það lakara, einkanlega sökum þess að uppdeiling og númer vísna er
breytilegt milli útgáfna. Guð sem ‘ráðandi’ er vanalegra í guðfræðilegum
textum (bls. 7).
Rétt er að geta að Martin Chase leggur Flat-textann til grundvallar, en
notar Bb þar sem leshættir hennar eru „clearly superior“ (bls. 6). Einnig
getur verið um fagurfræðileg rök fyrir lesháttum að ræða svo sem í fyrstu
línu Geisla, svo í Flat: „Eins má orð og bœnir…“. Hér velur Chase að fylgja
Finni (IB) og taka Bb lesháttinn ‘óð’ framyfir ‘orð’, þ.e. „Eins má óð ok
bœnir“. Rökin eru að: „óð assonates nicely with the syllables containing
vowel + <ð> in ll“ (bls. 7).
RITDÓMUR