Gripla - 20.12.2008, Page 298
GRIPLA296
des dialektischen und historischen Materialismus als einzig verbindliche
Grundlage für sein wissenschaftliches Arbeiten anerkennen musste, mit
meinem Wissenschaftsverständnis nicht vereinbaren“ (Begegnungen mit
Halldór Kiljan Laxness, bls. 59). Eintak hans af þýðingunni á Silfurtunglinu
varð eftir í Austur-Þýskalandi þegar hann yfirgaf landið og lá þar gleymt
og grafið uns það fannst aftur fyrir tilviljun árið 1991 og komst í hendur
Wilhelms Friese sem birti þýðingu sína á öðrum hluta leikritsins í áður-
nefndri bók. Þann 20. október 1993 var Friese veitt heiðursdoktorsnafnbót
við heimspekideild Háskólans í Greifswald. Í fréttatilkynningu frá deild-
inni segir að það hafi verið gert til að sýna virðingu framlagi hans til fræð-
anna í heild, einkum rannsóknum á sviði norrænna barokkbókmennta,
en einnig vegna þess að hann var sjálfum sér samkvæmur og hélt fast
við sannfæringu sína um frelsi vísindanna (http://idw-online.de/pages/de/
news276019). Hlé varð á samskiptum Laxness og Friese þegar ljóst varð
að ekkert yrði af sýningu Silfurtunglsins á þýsku. Þeir hittust ekki aftur
fyrr en á sjötugsafmæli Halldórs Laxness árið 1972 en þá stóð Friese fyrir
útgáfu greinasafns á þýsku honum til heiðurs. Í tilefni af áttræðisafmæli
Laxness sá Friese til þess að Halldóri var veitt heiðursdoktorsnafnbót við
Háskólann í Tübingen.
Sú sem þetta ritar átti því láni að fagna að kynnast Wilhelm Friese
persónulega og njóta leiðsagnar hans og hvatningar við samningu dokt-
orsritgerðar sem varin var við Háskóla Íslands árið 2005. Hin síðari ár
kom Wilhelm Friese oft til Íslands, jafnan í fylgd Dorothee Held lyfja-
fræðings í Tübingen sem var lífsförunautur hans um 25 ára skeið eða allt
þar til Friese lést. Áttu þau marga góða vini hér á landi. Wilhelm Friese
gat virst þurr á manninn við fyrstu kynni en var í raun afar hlýr maður,
gamansamur og hugmyndaríkur. Hann hafði lifandi áhuga á bókmenntum,
sögu og menningu, einkum Norðurlandanna. Hann ólst upp í kaþólskri
trú og var áhugasamur um trúarleg viðfangsefni enda leit hann á trúna sem
vettvang þar sem maðurinn leitar svara við mikilvægustu spurningum lífs-
ins. Um það fjallar ein síðasta greinin sem hann samdi: „Religion in Leben
und Werk von Halldór Kiljan Laxness“ sem birtist í áðurnefndri bók,
Begegnungen mit Halldór Laxness. Wilhelm Friese átti mikla lífsreynslu
að baki. Afstaða hans til lífsins einkenndist að mörgu leyti af æðruleysi,
bjartsýni og nægjusemi. Hann var blátt áfram, laus við tilgerð og stærilæti,
tryggur vinum sínum og opinn fyrir nýjum kynnum.