Són - 01.01.2003, Side 7
Kristján Eiríksson
Ný framsetning í bragfræði
Eínsog rímur (á Íslandi) eru kveðnar, og hafa verið kveðnar allt
að þessu, þá eru þær flestallar þjóðinni til mínkunar — það er
ekkji til neíns að leína því — og þar á ofan koma þær töluverðu
illu til leíðar: eíða og spilla tilfinníngunni á því, sem fagurt er og
skáldlegt og sómir sjer vel í góðum kveðskap, og taka sjer til
þjónustu ”gáfur“ og krapta margra manna, er hefðu gjetað gjert
eítthvað þarfara — orkt eítthvað skárra, eða þá að minnsta kosti
prjónað meínlausann duggara-sokk, meðan þeír voru að ”gull-
inkamba“ og ”fimbulfamba“ til ævarandi spotts og athláturs um
alla veröldina.1
Þannig hefst frægasti ritdómur Íslandssögunnar, dómur Jónasar
Hallgrímssonar í Fjölni 1837 um „Rímur af Tistrani og Indíönu“ eftir
Sigurð Breiðfjörð. Eins og upphafið ber með sér og oft hefur verið
bent á beinir Jónas ekki spjótum sínum einungis að þessum „Tistrans-
rímum“ og höfundi þeirra heldur ræðst hann að rímnakveðskap í
heild sinni. Ýmis rök lágu þó til þess að höggið reið að Sigurði þar
sem hann var virtasta rímnaskáldið og líta mátti á hann sem fremsta
fulltrúa þeirrar skáldskapargreinar.
Það er hins vegar ekki rétt, sem stundum hefur verið haldið fram,
að ritdómurinn sé bein árás á rímur sem skáldskaparform. Hann er
miklu fremur gagnrýni á það hvernig þessu formi hefur verið beitt í
aldanna rás og hvernig því er beitt á dögum Jónasar. Í dómnum talar
Jónas meira að segja um hvernig yrkja skuli rímur og segir:
Það er ekkjert vit í því, að rímna-skáldin eígi að vera bundin
við söguna. Þau eíga miklu fremur, þegar þörf gjörist, að
breíta henni á marga vegu, búa til viðburði sjálfir, og skapa hið
innra líf þeirra manna, er sagan nefnir, til að koma sem beztri
skjipun á efnið, og gjeta siðan [svo] leítt það í ljós í fagurlegri
1 Jónas Hallgrímsson (1837:18).