Són - 01.01.2003, Page 21
FIMM LJÓÐ 21
Og þó að heyri enginn á minn söng
og út í bláinn týnist hvert mitt stef
ég sáttur minni forsjón fyrirgef
og finn hve blómin anga dægrin löng,
þó svo að heyri enginn á minn söng.
Og þó svo aftur þögnin grúfi hér
og þaggi hvern minn tón, sem frjósi lind,
ég á í fórum engilskæra mynd,
sem aldrei verður tekin burt frá mér,
jafnt þó svo aftur þögnin grúfi hér.
Þakleki
Eins og vornæturregn
gegnum vetrarins þungbúna þak
berst þín minning til mín.
Undir lekann ég læt
og mitt ljóð, það er bytta og skál.
Í rökkrinu
Ég í rökkrinu kvæðin mín kvað,
öll mín kvæði um vorið og þig.
Já, og vinan mín, þökk fyrir það
sem að þú hefur gert fyrir mig.
Man ég enn hve sú gata var greið
þar sem gengum við saman eitt vor.
Upp með fljótinu lá okkar leið,
þar í leynum mun geymast hvert spor.
Og ég man hvernig síðförul sól
rann um síðir í fjallgarðsins tá.
Hverja von, sem að æska mín ól,
hef ég andvana kvatt síðan þá.