Són - 01.01.2003, Blaðsíða 93
NÓTTIN SKIPTIR LITUM 93
og brár hans lykjast aftur; austan fer
annarleg nótt og dimm með sigð í höndum,
með reidda sigð við rifin skýjatröf.8
Upphafsorðin eru skýr og skilmerkileg: „Haustið er komið handan
yfir sæinn.“9 Móðir náttúra lætur ekki að sér hæða í nöturleika sínum.
Í myndmálinu leynist himinhvolfið. Kenningin „hvarmaljós“ (‚augu‘)
næturinnar minnir á stjörnur næturhimins og slæðurnar á skýjahulu.10
Þar birtist nútíðin en í fortíðinni vekur „hárbrimið gullna“ hugrenn-
ingatengsl við sólina. Þá léku geislar hennar við andvarann áður en
skýin, slæðurnar þungu, byrgðu sýn. Sigð svartnættisins minnir á mána
enda svipuð í laginu og ber við himin, „við rifin skýjatröf“. Í augum
bjartrar („blárrar“) næturinnar, sumarnæturinnar, speglast beygur;
þau „dökkna af kvíða“. Hárið er hulið sjónum; fær ekki lengur að
bylgjast laust í andvaranum og lokka til sín daginn, rjóðan af geislum
sólar. Þegar sjónum er aftur beint að líðandi stundu syrtir í lofti. Hið
dökka sækir að hinu ljósa og í grámanum verða mörkin óglögg.
Dagurinn — nú kallaður „hann“ — hopar upp í brekkur, dapur í
bragði, einskis megnugur gegn „kuldans myrka valdi“. Hann skynjar
haustboðana af slíku næmi að hann „heyrir stráin fölna og falla“. Að
lokum hverfur náttúran honum sjónum, „brár hans lykjast aftur“;
síðustu dagskímuna þrýtur. Úr austurátt kemur („fer“) svartnættið og
hefur til himins sigð sem ristir sundur skýin. Þannig kemur efnið fyrir
sjónir í fljótu bragði.
8 Hér sem eftirleiðis er vitnað í frumútgáfu Kvæða (Snorri Hjartarson 1944:18–19). Í
síðari söfnum hefur skáldið hróflað við sumum eldri bragsmíðum sínum. „Haustið
er komið“ er samt óbreytt í Kvæðum 1940–1952 (Snorri Hjartarson 1960:22–23) og
Kvæðum 1940–1966 (Snorri Hjartarson 1981a:24–25) ef undan er skilinn rithátt-
urinn „skýatröf“ í staðinn fyrir „skýjatröf“ og að ekki er komma í fjórðu línu á
undan tilvísunarsetningunni „er lék sér frjálst við blæinn“. Snorri breytti því ekki
ljóðinu svo nokkru næmi og kann að segja sitt um álit hans á því en viðameiri
breytingar hans á öðrum kvæðum snerust um að gera þau knappari, ekki síst sú
að fella brott ýmis orð í síðari gerð (sbr. Pál Valsson 1990:91).
09 Haustið varð Snorra ósjaldan að yrkisefni. Í Ljóðarabbi gerir Sveinn Skorri
Höskuldsson (1989:29–36) átta slík kvæði eftir hann að umtalsefni: „Haust“ (í bók-
inni Á Gnitaheiði), „Á haustskógi“, „Haustkvöld“, „Haust“ (í Laufi og stjörnum) og
„Haustmyndir“ (sameiginlegt heiti á fjórum smáljóðum í bókinni Hauströkkrið yfir mér).
Páll Valsson (1990:94–96) hefur líka fjallað um haustið sem efni í ljóðum Snorra.
10 Tengsl hvarmljósanna við stjörnur eru síður en svo langsótt, samanber síðari liðinn,
-ljós, og orðið hvarmastjörnur ‚augu‘, auk orðasambanda á borð við að augu e-s
tindri/bliki eins og stjörnur. Síðari liðurinn, -ljós, er stofnorð en fyrri liðurinn, hvarmar
‚augnlok‘, telst vera kenniorð.