Són - 01.01.2003, Qupperneq 95
NÓTTIN SKIPTIR LITUM 95
Hér er komið stílbragðið enjambement, línustikl svo notað sé íslenskt orð
í stað hins franska.13 Sögnunum sér og fer, sem ríma, er léð meira vægi
en ella með því að draga þær aftast í næstu línur á undan. Þannig er
formfestunni storkað.14 Um leið næst fram sérstæð hrynjandi, líkt og
dagurinn sé í þann veginn að líða út af og skilningarvit hans slævist.
IV Um persónugervingar og andstæður
Hannes Pétursson telur að „Haustið er komið“ sé dæmi um hina
„hreinu náttúru-lýrikk“ í Kvæðum; þar „gleymist allt nema fegurð
landsins, ást skáldsins til þeirrar jarðar sem ól hann, hugur hans
verður heill og óskiptur, eigin vandamál hverfa í þeirri andrá, sem
fegurð landsins gagntekur hann“.15 En fleiri víddir gætu leynst í
ljóðinu því að persónugerving er máttarviður í myndbyggingu þess.
Í leiftri liðinnar tíðar birtist dagurinn fyrst og horfir þá á nóttina.
Þegar aftur er snúið til líðandi stundar er skyggnst inn í hug hans; þá
er hann „stúrinn […] / og veit að það er eftir engu að bíða“. Þar
kemur (í fyrri þríhendu) að náttúrunni er lýst með skilningarvitum
hans — hann „heyrir“ og „sér“ — uns „brár hans lykjast aftur“. Hin
bláa nótt ber slæður og hefur augu og hár en er líka uggandi;
„hvarmaljós“ hennar „dökkna af kvíða“. Hin dimma nótt er líka
kona; hún hefur hendur og reiðir sigð. Fleira gæti verið persónugert,
til dæmis „hárbrimið gullna, er lék sér frjálst við blæinn / og seiddi í
leikinn sólskinsrjóðan daginn“,16 jafnvel blærinn því hann brá líka á
leik.17 Kuldinn er valdhafi og gengur allt í haginn.18 Vindarnir bera
13 Atli Ingólfsson (1994:15) notar sambandið þræddar línur í merkingunni ,enjambe-
ment‘. „Haustið er komið“ hefur áður verið tekið sem dæmi um það stílbragð en
túlkað á annan veg en hjá greinarhöfundi (sbr. Sverri Hólmarsson 1968:18–19 og
Pál Valsson 1990:35–38, 1992:XXIV; til hliðsjónar má vísa á Hugtök og heiti í bók-
menntafræði 1983:71).
14 Þórir Óskarsson (1987:105) segir að enjambement verði „sennilega ekki verulega algengt
fyrr en í ljóðum Tómasar Guðmundssonar“ (uppi 1901–1983). Benedikt Gröndal
(uppi 1826–1907), Stephan G. Stephansson (uppi 1853–1927) og Einar Benediktsson
(uppi 1864–1940) nota stílbragðið en eins og Sverrir Hólmarsson (1968:17–19) bendir
á beitir Snorri því markvissar en þeir og gengur jafnvel lengra en Jónas Hallgrímsson
(uppi 1807–1845). Ef til vill hefur hann verið tvístígandi í listsköpun sinni á árunum
1940–1944, þegar hann samdi Kvæði, þótt að upplagi væri hann hollur hefðinni.
15 Hannes Pétursson (1960:14).
16 Skáletrun er mín, E.S.
17 Blærinn er persónugerður í þeim skilningi að orðasambandið leika sér við (einhvern)
felur í sér að allir eða báðir sem í hlut eiga leiki sér, blærinn þar með talinn, and-
stætt sambandinu leika sér að (einhverjum eða einhverju).
18 Merkingar vegna er myndhverfa orðatakið að ganga allt í haginn yfirleitt haft um menn.