Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 9
9
Björn Ægir Norðfjörð
Hvað er heimsbíó?
Ritið 2/2010, bls. 9–34
Í kvikmyndinni A Little Trip to Heaven (2005, Stutt ferð til himna) leikur
Forest Whitaker starfsmann tryggingafyrirtækis sem rannsakar bílslys er
skötuhjú, leikin af Juliu Stiles og Jeremy Renner, kunna að hafa sett á svið
í miðvestrinu bandaríska.1 Það sem virðist á yfirborðinu nokkuð dæmi-
gerður bandarískur reyfari reynist þó vera íslensk kvikmynd svo að segja;
kvikmynduð á Íslandi, styrkt af Kvikmyndasjóði Íslands og mestmegnis
unnin af íslenskum kvikmyndagerðarmönnum, undir leikstjórn Baltasar
Kormáks. Íslensk eða bandarísk? Kvikmynd Ólafs Jóhannessonar The
Amazing Truth About Queen Rachela (2008, Hinn undursamlegi sannleikur
um Raquelu drottningu) leikur á fleiri og óræðari mörkum. Í áhugaverðri
1 Ég þakka Ástráði Eysteinssyni, Birni Þór Vilhjálmssyni og samritstjóra mínum
Úlfhildi Dagsdóttur góðan yfirlestur og gagnlegar ábendingar. Allar þýðingar í
greininni eru mínar nema annað sé tekið fram. Þegar að þýðingum á kvikmynda-
titlum kemur hef ég kosið að birta þá fyrst á frummálinu, en látið íslenska þýðingu
fylgja innan sviga (nema þegar um staðarheiti er að ræða). Ég hef notast við enska
titla á kvikmyndum sem hafa einkum verið gerðar fyrir erlendan markað og titill
myndarinnar birtist jafnvel sem slíkur í myndinni, t.d. A Little Trip to Heaven og
Hero, eða þegar titillinn vísar til ensks dægurlags, t.d. A Little Trip to Heaven og
Happy Together. Enn fremur hef ég ekki komist hjá því að þýða titla tungumála sem
ég þekki ekki með aðstoð enskra þýðinga sem getur verið misvísandi þar sem titl-
um úr frummáli er oft breytt með einum eða öðrum hætti. Á móti kemur að
íslenskir lesendur eru líklegri til að þekkja enska þýðingu titils en heiti á frummál-
inu, sem segir ýmislegt um stöðu enskunnar í þessum heimi. Í sumum tilvikum
mætti raunar segja að kvikmyndir búi með réttu yfir fleiri en einum titli. Þessi
vandamál við útlistun titla eru dæmigerð fyrir heimsbíóið. Loks nota ég „kvik-
mynd“ eða einfaldlega „mynd“ (e. film) þegar ég vísa til einstakra verka, en „bíó“
(e. cinema) þegar ég á við kvikmyndagerð almennt, þótt stundum noti ég „kvik-
myndina“ með greini þegar átt er við ákveðna gerð kvikmynda líkt og þriðju
kvikmyndina (e. third cinema).