Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 16
BjöRN ÆGiR NoRðfjöRð
16
gerð á ítalska spaghettí-vestranum Il buono, il brutto, il cattivo (1966, Sergio
Leone, Sá góði, sá slæmi, sá ljóti) sem er sjálf meðvituð endursköpun á vestr-
anum — sem umfram aðrar kvikmyndagreinar er samofinn bandarískri
þjóðarvitund. Þessi hrærigrautur er svo kryddaður með stílbrögðum og
tæknibrellum Hong Kong- og Hollywood-mynda í von um að höfða til
áhorfenda víða um heim. Þótt að Joheunnom nabbeunnom isanghannom eigi
sér ljóslega rætur í suður-kóresku þjóðarbíói verður myndin ekki greind á
fullnægjandi máta án þess að skoða þætti sem tilheyra öðru fremur banda-
rísku og ítölsku þjóðarbíói. Það eru þessi margbrotnu tengsl sem heims-
bíóhugtakið nær svo vel utan um en hætt er við að horft sé fram hjá ef
einblínt er á afmarkað þjóðarbíó. Kvikmynd malí-máritaníska leikstjórans
Abderrahmane Sissako Bamako (2006) virðist við fyrstu sýn andhverfa
Until the End of the World og Joheunnom nabbeunnom isanghannom enda ger-
ist hún mestmegnis í stökum húsagarði. En í húsagarðinum er tekist á um
stöðu þriðja heimsins, eftirlendustefnuna og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,
franska og bambaríska eru talaðar á víxl, myndin er samvinnuframleiðsla
Frakka og Malíbúa, og reyndar er bandaríska leikarann Danny Glover að
finna á meðal framleiðenda hennar, auk þess sem hann fer með hlutverk í
stuttum vestra sem sýndur er í miðri mynd ásamt Sissako sjálfum og
öðrum leikstjórum á borð við Palestínumanninn Elia Suleiman. Þessi
margvíslegu þverþjóðlegu tengsl kalla á greiningu sem er ekki bundin við
skýrt afmarkaða þjóð — malískt þjóðarbíó — heldur tekur til samspils
ólíkra heimshluta. Við getum líka litið okkur nær. Auk þeirra kvikmynda
sem tilteknar voru hér í upphafi greinarinnar mætti nefna glæpamynda-
bylgjuna á Íslandi sem sótt hefur í greinahefð Hollywood, og í sumum til-
fellum, líkt og Reykjavík Rotterdam (2008, Óskar Jónasson), búið til alþjóð-
lega fléttu. Það stendur einmitt til að endurgera þá mynd í Hollywood, en
þess háttar hringrás rúmar hugmyndin um þjóðarbíó varla.12 Jafnvel mynd
eins og Nói albínói (2003, Dagur Kári) sem gerist í litlu krummaskuði út á
landi reynist vera gerð og fjármögnuð af aðilum héðan og þaðan úr Evrópu
og höfðar með áherslu sinni á sammannleg þemu og framandi sviðsmynd
til áhorfenda víða um heim.
12 Ef marka má fréttir af fyrirhugaðri Hollywood-útgáfu mun Mark Wahlberg fara
með aðalhlutverk og verða myndinni fundnar nýjar sviðsetningar. Sjá t.d. „Mark
Wahlberg to topline Reykjavik: Working Title to remake Icelandic thriller“, The
Hollywood Reporter 5. október 2009, http://www.hollywoodreporter.com/hr/con-
tent_display/film/news/e3id9b527feb7849541dbf064013d6882b9 (sótt 12. mars
2010).