Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Qupperneq 24
BjöRN ÆGiR NoRðfjöRð
24
verður einkar áþreifanleg þegar kemur að kvikmyndagerð og þá ekki síst
hvað varðar spurningar er snúa að hnattrænni pólitík og menningarlegri
mismunun. Áhorfendur jafnt sem gagnrýnendur nálgast oft vinsælar
Hollywood-myndir sem þær væru ópólitískar (líkt og þær virðast gjarnan
vera á yfirborðinu), ómeðvitaðir um hvernig markaðsmaskína Hollywood
með fulltingi bandarískra stjórnvalda hefur kerfisbundið barist fyrir óheft-
um aðgangi að erlendum mörkuðum og beitt sér gegn staðbundinni kvik-
myndagerð, svo að ekki sé minnst á samslátt hagsmuna Hollywood og
bandaríska heimsveldisins allt frá lokum fyrri heimsstyrjaldar.25 Heimsbíóið
spyr aftur á móti hví Hollywood-myndir ráði yfir 90% af íslenskum kvik-
myndamarkaði, hví við sjáum svo lítið af evrópskum myndum, og þá helst
á kvikmyndahátíðum, og hvers vegna við sjáum alls ekki myndir frá
Bollywood eða Nollywood. Heimsbíóið spyr af hverju kvikmyndir þessara
landsvæða séu jafn ólíkar og raun ber vitni, hvort heldur það varðar ríki-
dæmi, fagurfræði eða samfélagsgildi. Umfram annað veitir hugmyndin um
heimsbíó meðvitund um ákveðna fjarlægð áhorfenda og viðfangsefnis og
hvetur til íhugunar á ólíkum gildum og listrænum áherslum — býr til rými
fyrir „framandleika hins ókunna“ svo að vísað sé aftur til orða Said.
Heimsbíóið kallar á kortlagningu af kvikmyndagerð heimsins sem
gefur til kynna mismun og ólíka stöðu kvikmyndagerðarmanna vítt og
breitt um heiminn. Í bókmenntafræðum má þegar sjá grunn að slíkri
kortlagningu í Orientalism en tvö nýleg verk hafa valdið straumhvörfum í
þessu samhengi, Atlas of the European Novel eftir Franco Moretti og The
World Republic of Letters eftir Pascale Casanova. Bæði þessi verk kortleggja
bókmenntaheiminn (þótt bók Moretti sé einkum bundin Evrópu) með
áherslu á völd og áhrif ríkja hans og rithöfunda þeirra sem og samspilið
þar á milli.26 Það er þess háttar kortlagning sem textafræðileg nálgun á
heimsbíóinu kallar á en segja má að kvikmyndafræðingurinn Dudley
Andrew hafi þegar stigið skref í þá átt með grein innblásinni af Moretti og
nefnist einmitt „An Atlas of world cinema“.27 Það er lýsandi fyrir vanda
þessa verks að Andrew dugir ekki ein gerð korta til verksins heldur leitar
hann sí og æ á náðir flóknari gerða í von um að kortleggja heimsbíóið.
25 Sjá t.a.m. Toby Miller, Nitin Govil, John McMurria, Ting Wang og Richard
Maxwell, Global Hollywood, 2. útgáfa, London: British Film Institute, 2008.
26 Franco Moretti, Atlas of the European Novel 1800–1900, London: Verso, 1999;
Pascale Casanova, The World Republic of Letters, þýð. M. B. DeBevoise, Harvard:
Harvard University Press, 2005.
27 Sjá þýðingu á grein Andrew aftast í þessu Riti.