Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 29
29
HVAð ER HEIMSBÍÓ?
stóra nafnið í taívanskri kvikmyndagerð, Tsai Ming-liang, er sjálfur lifandi
dæmi um slíkan þverþjóðleika, en hann er af kínversku bergi brotinn,
fæddur í Malasíu og flutti ekki til Tapaí, höfuðborgar Taívan, fyrr en hann
var kominn á fullorðinsaldur. Fáir leikstjórar hafa fangað öfgar nútíma-
stórborgarinnar með sama hætti og Tsai gerir Tapaí í He liu (1997, Áin),
Dong (1998, Holan), Ni na bian ji dian (2001, Hvað er klukkan hjá ykkur; 48.
sæti í FC), sem bætir jafnframt París við jöfnuna, og Bu San (2003, Vertu
blessuð Drekakrá; 23. sæti í FC), og tilvist einstaklinga í hnattrænni veröld
— ekki síst einmanaleikann sem getur gripið mann í miðjum fjöldanum.
Forgengileika mannlegra samskipta í heimi yss og þyss, eilífra ferðalaga og
brottflutninga hefur Hong Kong-leikstjórinn Wong Kar Wai fjallað um á
einstakan máta í myndum á borð við Happy Together (1997, Glöð saman) og
In the Mood for Love (2000, Í ástarstemningu; 2. sæti í FC). Í þeirri fyrr-
nefndu eru aðalpersónurnar elskendur frá Hong Kong sem búsettir eru í
Argentínu. Annar þeirra vingast þar við kokk frá Taívan og heimsækir
síðan foreldra hans þegar hann snýr sjálfur aftur heim til Hong Kong eftir
erfið sambandsslit. Sú síðarnefnda fjallar um vináttu og ást nágranna í
þröngum Hong Kong-hýbýlum, tilfinninga sem leiða þó aldrei til áþreif-
anlegs sambands þar sem parið vill ekki líkja eftir mökum sínum sem
standa einmitt í framhjáhaldi. Í bakgrunni er rakin saga umróts og fólks-
flutninga, en aðalkarlpersónan flyst til Singapúr og í óræðum endalokum
má sjá hana hvísla leyndarmálum að Angkor Wat-rústunum í Kambódíu.
Kannski er það aðeins Kínverjinn Jia sem hefur roð við þeim Tsai og
Wong þegar kemur að því að skoða samverkan einstaklings og hnattvæð-
ingar en með Shijie (2004, Heimurinn; 26. sæti í FC) sagði hann skilið við
heimahérað sitt Shanxi og gerði mynd sem um margt kjarnar ófá svið
heimsbíósins. Í Shijie glíma aðalpersónurnar við margvíslegar afleiðingar
hnattvæðingarinnar í skemmtigarði í Peking sem endurskapað hefur
heiminn í mýflugumynd. Líkt og leikstjórinn hefur sjálfur komist að orði.
„Ég taldi að umhverfi Heimsgarðsins gæfi myndinni einkar almenna skír-
skotun. Þannig væri sagan ekki aðeins kínversk, heldur ætti sér myndrænt
stað á ólíkum stöðum í heimunum.“31 Einstaklingurinn og hnattvæðingin
takast á í áhrifaríkum sviðsetningum þar sem persónur glíma við velkunn
vandamál er varða vináttu, ást, sorg og söknuð með Eiffelturninn, Skakka
turninn eða Tvíburaturnana í bakgrunni. Shijie er jafnframt ákveðin gagn-
rýni á þann tilbúna ímyndaheim hnattvæðingarinnar sem helst virðist vilja
31 Sjá fylgiblað með dvd-útgáfu á Shijie, New York: Zeitgeist films, 2006.