Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Síða 43
HRoLLVEKJUR LIGGJA TIL ALLRA ÁTTA
43
hverrar kvikmyndagreinar sé ávallt að finna samspil hefða og útúrdúra sem
knýi frásögnina áfram og í þessum tilbrigðum felist einmitt ferlið, sem er
vissulega stundum mótað af endurtekningu, en einkennist „einnig af mis-
mun, umskiptum og breytingu.“17 Innan hrollvekjunnar eru hefðirnar
orðnar svo sterkar að þær eru sérleg uppspretta ánægju og myndir
Balagueró eru góð dæmi um hvernig formúlan nýtur sín til hins ýtrasta:
það er ekkert sem kemur á óvart enda er það ekki aðalatriðið, heldur
hvernig unnið er með helstu þættina, eins og það að áhorfandi geti treyst á
að allar persónur taki alltaf ranga ákvörðun, standi þær frammi fyrir vali.18
Myndirnar eru líka sérlega góð dæmi um það hvernig þessi formúla til-
heyrir hrollvekjunni í heild sem kvikmyndagrein, en er ekki afmörkuð við
tilteknar kvikmyndahefðir eða þjóðarmyndir.
Þrátt fyrir að flestir þekki formúlurnar í gegnum bandarískar kvik-
myndir er ljóst að þær eru ekki endilega sprottnar þaðan, heldur hafa ein-
mitt mótast í gagnvirku samspili áhrifa, sem meðal annars kemur frá
hinum eldri (nú klassísku) hrollvekjum Suður-Evrópu. Zombían er einmitt
gott dæmi um þetta, en eins og áður hefur komið fram tóku Ítalir hana upp
á arma sína, í kjölfar óvæntra vinsælda Nætur hinna kviku náa, og þar varð
hún að heilli undirgrein hrollvekja sem hafði sín áhrif á mótun zombíu-
mynda í Bandaríkjunum og þaðan er hægt að rekja slóðina aftur til
Upptökunnar.
Hrollvekjur heimsins
Zombían í Upptöku er reyndar nokkuð vampýrísk (hún virðist sinna blóð-
drykkju meira en hefðbundnara mann(og þá sérstaklega heila)áti) og
ýmislegt í myndinni minnir ofurlítið á meistaraverk mexíkóska leikstjórans
Guillermo del Toro, Cronos (1993). Segja má að sú mynd hafi markað upp-
haf þeirrar (ný)bylgju suðrænna hrollvekja sem hafa verið afar áberandi á
fyrstu árum nýrrar aldar. Í kjölfarið fylgdu tvær myndir sem vísa til
spænsku borgarastyrjaldarinnar, Hryggjarliður djöfulsins (2001, El espinazo
del diablo) og Völundarhús Pans (2006, El laberinto del fauno), auk hrollvekja
sem hann gerði í Bandaríkjunum.19 Þessar myndir standa allar á mörkum
17 Steve Neale, „Vandamál greinahugtaksins“, bls. 141.
18 Neale fjallar einnig um mikilvægi væntinga og ánægjuna af því að „vita“ hvað er að
ske í tengslum við kvikmyndagreinar.
19 Sjá um myndir Guillermo del Toro, grein mína „Hægri hönd skapadómsins og
besti vinur skrýmslanna: Guillermo del Toro“, Lesbók Morgunblaðsins 21. ágúst
2004.